A kvartaði yfir því að ekki væri gætt jafnræðis við val á heimilum sem sæta könnun af hálfu vistheimilanefndar. A var vistuð sem barn á tilteknu heimili og vildi að það yrði rannsakað af nefndinni.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi 17. janúar 2013.
Umboðsmaður tók fram að í lögum væri ekki tekin skýr afstaða til þess til hvaða vist- og meðferðarheimila fyrir börn eða stofnana starf nefndarinnar gæti tekið heldur væri forsætisráðherra ætlað að afmarka það nánar í erindisbréfi. Samkvæmt skýringum forsætisráðuneytisins hefði starf nefndarinnar hingað til einskorðast við stofnanir sem uppfylltu ákveðin skilyrði, þ.e. að þær hefðu ekki verið starfandi við gildistöku laganna, að þær hefðu verið reknar af ríki eða sveitarfélögum eða af hálfu einkaaðila á grundvelli opinbers leyfis samkvæmt lögum eða að um hefði verið að ræða sérskóla er störfuðu á grundvelli sérákvæða í fræðslulöggjöf. Samkvæmt því sem umboðsmaður komst næst var heimilið sem A var vistuð á ekki stofnun heldur var um að ræða fósturráðstöfun á einkaheimili. Samkvæmt upplýsingum frá forsætisráðuneytinu og velferðarráðuneytinu hafði ekki verið tekin ákvörðun um hvort fela ætti vistheimilanefnd að taka slíka vistun til athugunar. Miðað við þann lagagrundvöll sem starfi og verkefnum vistheimilanefndar er búinn taldi umboðsmaður sig ekki geta gert athugasemdir við það hvernig verkefni nefndarinnar hefðu fram að þessu verið afmörkuð í erindisbréfum forsætisráðherra og þar með að könnun nefndarinnar hefði enn sem komið er ekki tekið til vistunar A.
Þá fékk umboðsmaður ekki séð, miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, að staða fósturheimilis A og vistun hennar þar hefði verið sambærileg í lagalegu tilliti við þær stofnanir og heimili sem þegar höfðu verið teknar til athugunar, þ.e. ekki var um að ræða stofnun sem rekin var með sama hætti heldur var um að ræða fósturráðstöfun á einkaheimili. Þar með taldi umboðsmaður ekki forsendur til þess að draga þá ályktun að stjórnvöld hefðu brotið jafnræðisreglur með því að láta könnun vistheimilanefndar ekki taka til heimilisins. Þegar stjórnvöld hefðu ákveðið hvort vistheimilanefnd yrði falið að taka til athugunar vistun og dvöl barna á fósturheimilum og sveitaheimilum kynni hins vegar að verða tilefni til þess að leggja mat á hvort gætt hefði verið jafnræðis milli þeirra sem dvöldu á einstökum heimilum miðað við þau heimili sem vistheimilanefnd yrði falið að kanna.
Umboðsmaður taldi ekki skilyrði að lögum til þess að fjalla frekar um málið að svo stöddu en tók fram að A væri frjálst að leita til sín að nýju, bæði vegna fyrirspurna um hvort fela ætti vistheimilanefnd að kanna heimili sambærileg þeim sem hún dvaldi á og ef hún teldi brotið gegn jafnræðisreglum með nýjum ákvörðunum um verkefni vistheimilanefndar. Þá benti umboðsmaður A á að ef hún teldi ástæðu til að aðhafast vegna dvalar sinnar á öðrum heimilum eða stofnunum sem hún nefndi í kvörtuninni væri rétt að leita til stjórnvalda af því tilefni en síðan væri henni frjálst að leita til sín ef hún yrði ekki sátt við þau svör sem hún fengi.
1993, nr. 37. Stjórnsýslulög. - 1. mgr. 11. gr.
1997, nr. 85. Lög um umboðsmann Alþingis. - a-liður 2. mgr. 10. gr.
2007, nr. 26. Lög um skipan nefndar til að kanna starfsemi vist- og meðferðarheimila fyrir börn. - 1. mgr. 1. gr., 2. mgr. 1. gr., 5. gr.