A var búsettur í kauptúni þar sem aðalskoðun bifreiða var ákveðin 8. júlí 1991. A færði bifreið sína til skoðunar sama dag hjá Bifreiðaskoðun Íslands h.f. í Reykjavík og var þá gert að greiða sérstakt seinkunargjald. A fór þess á leit við dómsmálaráðuneytið, að það hlutaðist til um að hann fengi endurgreitt seinkunargjaldið og að reglum um skoðun bifreiða yrði breytt að þessu leyti. Í svari dómsmálaráðuneytisins kom fram, að Bifreiðaskoðun Íslands h.f. hefði ákveðið að endurgreiða A seinkunargjaldið ásamt virðisaukaskatti. Sá ráðuneytið með hliðsjón af þessari niðurstöðu því ekki ástæðu til frekari afskipta af málinu.
Í kvörtun A til mín taldi hann að dómsmálaráðuneytið hefði ekki tekið á því máli, að bifreiðar manna utan af landi, þar sem skoðunardagar væru einn til tveir á ári, væru taldar ólöglegar utan síns skoðunarsvæðis, vísaði skráningarnúmer til þess, að liðinn væri skoðunarmánuður. Í bréfi, er ég ritaði A 25. nóvember 1991, tjáði ég honum, að ég liti svo á, að hann hefði fengið leiðréttingu mála sinna, og væri málinu því lokið af minni hálfu, sbr. a. lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis og 2. tl. 2. mgr. 10. gr. reglna nr. 82/1988 um störf og starfshætti umboðsmanns Alþingis. Greindi ég A frá því, að ég hefði ritað dómsmálaráðuneytinu bréf sama dag, þar sem ég gengi út frá því, að þeirra sjónarmiða, er lögð hefðu verið til grundvallar endurgreiðslunni til A yrði gætt í framtíðinni við lögskipaða skoðun bifreiða.