Fangelsismál. Lagaákvæði um skoðun og upptöku ritaðs efnis.

(Mál nr. 471/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 18. nóvember 1991.

Í bréfi, sem fanginn A ritaði mér, vakti hann máls á því, hvort ákvæði 22. gr. laga nr. 40/1988 um fangelsi og fangavist, um skoðun og upptöku handrita, er fangi hefði skráð í fangelsinu, samrýmdist 72. gr. stjórnarskárinnar.

Í bréfum, er ég ritaði dómsmálaráðuneytinu 27. júní 1991 og 8. ágúst s.á., óskaði ég eftir upplýsingum um framkvæmd nefndra ákvæða. Í svarbréfi dómsmálaráðuneytisins 20. ágúst 1991 kom fram:

"Í framangreindu bréfi óskið þér eftir upplýsingum um framkvæmd á ákvæðum 22. gr., ef á reynir.

Eins og fram kemur í bréfi ráðuneytisins, dags. 17. júlí sl., hafa ekki verið settar reglur eða gefnar út leiðbeiningar um hvernig framkvæma eigi ákvæði framangreindrar lagagreinar. Samkvæmt upplýsingum í síma frá forstjóra fangelsisins á Litla-Hrauni og forstöðumanni fangelsanna á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki reynt á ákvæði framangreindrar lagagreinar. Er því ekki að svo stöddu unnt að gera grein fyrir hvernig staðið verður að framkvæmd á ákvæðum greinarinnar."

Í bréfi sem ég ritaði A 18. nóvember 1991, gerði ég honum svofellda grein fyrir niðurstöðum athugana minna:

"Það er álit mitt, að umrædd ákvæði 22. gr. laga nr. 40/1988 fari sem slík naumast í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þrátt fyrir ákvæði 72. gr. má, að mínum dómi, heimila fangelsisyfirvöldum að kanna skrifað efni, sem fangi hefur undir höndum, og ekki er unnt að útiloka, að efni þess sé slíkt að leggja megi hald á það. Verður það að vera úrlausnarefni í hverju einstöku tilviki, hvort fangelsisyfirvöld hafa gengið lengra en lög og stjórnarskrá heimila. Engu að síður tel ég, að fangelsisyfirvöld verði að fara mjög varlega í þessum efnum og þá alveg sérstaklega að því er tekur til ráðstafana, sem heimilaðar eru í 22. gr. og fela í sér upptöku handrita."

Greindi ég A frá því að ég hefði af þessu tilefni ritað dómsmálaráðherra bréf sama dag, en þar segir meðal annars:

"Það er niðurstaða mín í síðastgreindu bréfi, að ákvæði 22. gr. laga nr. 40/1988 um skoðun og upptöku handrita, sem eru í vörslum fanga, fari sem slík naumast í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Engu að síður tel ég ástæðu til að leggja áherslu á, að fangelsisyfirvöld verða að fara mjög varlega í slíkar ráðstafanir og þá alveg sérstaklega í upptöku skrifaðs efnis, en upptöku tel ég hæpna, nema samkvæmt dómi. Umrædd heimildarákvæði 22. gr. eru mjög rúm og ekki hafa í reglugerð eða með öðrum hætti verið sett nánari fyrirmæli um framkvæmd 22. gr. Tel ég ástæðu til að beina þeim tilmælum til ráðuneytis yðar, að það eigi frumkvæði að endurskoðun á 22. gr. laga nr. 40/1988 og setji fangelsisyfirvöldum skýrari reglur um framkvæmd slíkra ákvæða."

Í áðurgreindu bréfi mínu til A tók ég fram, að hann hefði ekki tilfært nein dæmi um aðgerðir fangelsisyfirvalda af því tagi, sem rætt hefði verið um. Teldi ég því ekki ástæðu til frekari afskipta af minni hálfu af málinu.