Lífeyrismál. Breyttar viðmiðanir í lögum við útreikning ellilífeyris.

(Mál nr. 389/1991)

Máli lokið með bréfi, dags. 6. febrúar 1992.

A kvartaði yfir því, hvernig viðmiðun lífeyris hennar frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins væri ákveðin. Tilefni kvörtunar A var, að með lögum nr. 47/1984 var lögum sjóðsins breytt á þann veg, að eftirlaunagreiðslur skyldu fara eftir heildarstarfshlutfalli á starfsævinni. Samkvæmt þessu var það ekki lengur nægilegt fyrir A, að vera í fullu starfi síðasta starfsárið til að tryggja sér fullan ellilífeyri eftir að hún hafði lokið störfum sínum. A hafði sótt um það til lífeyrissjóðsins á árinu 1984, að fá að greiða til sjóðsins samsvarandi því starfi, sem hún hafði unnið á árunum 1974-1982, en A gegndi þá 2/3 hluta starfs, sem grunnskólakennari auk þess, sem hún vann að sérverkefnum fyrir menntamálaráðuneytið. Var ósk A hafnað, þar sem lagaheimild skorti.

Í kvörtun sinni tók A fram, að tiltekinn starfsmaður lífeyrissjóðsins hefði gefið sér þær upplýsingar, að skert starfshlutfall hennar um tíma kæmi ekki að sök, þar sem að eftirlaun hennar yrðu reiknuð út eftir starfshlutfalli á síðasta starfsári og þótt slíku yrði breytt, yrðu slík lög ekki afturvirk.

Í bréfi mínu til A, dags. 6. febrúar 1992, sagði m.a. svo:

"Ég skil kvörtun yðar svo, að þér teljið að með þessari breytingu hafi væntanlegur réttur yðar til lífeyris verið skertur með afturvirkum hætti. Af því tilefni spyrjið þér, hvort það samrýmist hefðum, lögum eða stjórnarskrá að lög séu afturvirk á þann hátt, sem hér um ræðir.

Samkvæmt bréfi yðar til mín, dags 17. janúar 1992, eruð þér nú starfsmaður ríkisins í fullu starfi og greiðið því samkvæmt því iðgjöld til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Kvörtun yðar byggist á því, að þér munið framvegis gegna fullu starfi hjá ríkinu, þar til þér látið af störfum. Á þessu stigi er hins vegar ekki vitað, hvaða áhrif framangreind breyting á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins muni í raun hafa á upphæð lífeyris til yðar. Fer það m.a. eftir því, hvort þér gegnið fullu starfi síðasta starfsár yðar eða ekki. Ef þér gegnið þá fullu starfi, leiðir breytingin, eftir núgildandi reglum, til skerðingar á lífeyri yðar miðað við eldri reglur, en í öðrum tilfellum gæti breytingin orðið yður til hagsbóta.

Aðstaðan hér er sú, að breyttar reglur laga nr. 47/1984 geta því ýmist leitt til hagstæðari eða óhagstæðari niðurstöðu fyrir yður, allt eftir því hvort meðalhlutfall starfsævinnar allrar verður hærra eða lægra en síðasta starfshlutfall. Við gildistöku þessara laga var því (og er enn) óljóst, hvort eldri eða yngri reglurnar myndu reynast yður hagstæðari. Þegar nýju reglurnar tóku gildi, höfðuð þér ekki hafið töku lífeyris né áttuð þér rétt á því. Ég tel því, að lífeyrisréttindum yðar hafi ekki verið þannig háttað, að löggjafanum hafi, að því er þau varðaði, verið óheimilt samkvæmt 67. gr. stjórnarskrárinnar að breyta reglum um fjárhæð lífeyris með þeim hætti, sem gert var með 4. gr. laga nr. 47/1984. Niðurstaða mín er því sú, að ekki sé tilefni til frekari athugasemda af minni hálfu vegna lagabreytingar þessarar."

Að því er varðaði kvörtun A, er laut að ummælum nefnds starfsmanns sagði svo í bréfi mínu til A:

"Ekki liggur nákvæmlega fyrir, hvaða orð féllu í viðtali yðar við nefndan starfsmann sjóðsins,..., né hvenær það viðtal átti sér stað. Þær upplýsingar, sem þér hafið eftir honum um að upphæð lífeyris myndi reiknast út frá starfshlutfalli á síðasta starfsári, voru réttar samkvæmt gildandi lögum, þegar þær voru gefnar. Álit hans á því, hvernig hugsanlegum lagabreytingum yrði háttað, geta ekki bakað lífeyrissjóðnum ábyrgð, þar sem starfsmaðurinn var augljóslega ekki bær til að gefa bindandi yfirlýsingar í þessu efni, enda hvorki á forræði stjórnar sjóðsins eða starfsmanna hans að gefa slíkar yfirlýsingar um löggjafaratriði. Ef um staðhæfingu af hans hálfu hefur verið að ræða, þá getur slíkt ekki samrýmst vönduðum stjórnsýsluháttum, en ég tel mig ekki geta lagt dóm á það atriði, þar sem nánari upplýsingar skortir."

Ég tilkynnti því A, að það væri niðurstaða mín, að ég teldi mér ekki fært að hafa frekari afskipti af máli því, er kvörtun hennar laut að.