A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að krefja A um endurgreiðslu útborgaðrar fjárhæðar úr sjóðnum.
Í upphafi þess mánaðar sem barn A fæddist tók hann við nýju starfi í 50% starfshlutfalli. Hann dreifði síðan rétti sínum til fæðingarorlofs og var í starfinu samhliða 50% orlofi. Ástæða endurgreiðslukröfu Fæðingarorlofssjóðs var að sjóðurinn taldi hann hafa þegið of háar greiðslur frá vinnuveitanda í fæðingarorlofinu. Var þar miðað við að samanlagðar greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og frá vinnuveitanda mættu ekki vera hærri en meðaltal heildarlauna hans á svokölluðu viðmiðunartímabili. Kvörtun A laut að því að við úrlausn málsins hefði ekki verið tekið tillit til launahækkunar vegna nýs starfs hans eins og væri heimilt samkvæmt ákvæðum laga um fæðingar- og foreldraorlof.
Í skýringum úrskurðarnefndarinnar í máli A kom fram að launabreytingar vegna nýs starfs A hefðu ekki komið til skoðunar þar sem miðað væri við almanaksmánuði við útreikning á meðaltekjum. Lagði umboðsmaður því til grundvallar að úrskurðarnefndin hefði aðeins talið heimilt að líta til launabreytinga fram að fyrsta degi þess mánaðar sem fæðingarorlof hæfist. Umboðsmaður benti á að þótt meðaltal heildarlauna á viðmiðunartímabili væri reiknað út á grundvelli almanaksmánaða yrði ekki séð að hið sama ætti við um heimildina til að taka tillit til launabreytinga sem rekja mætti til breytinga á störfum foreldris, enda væri sérstaklega gert ráð fyrir því í lögskýringargögnum að þær breytingar gætu komið til frá því að viðmiðunartímabilinu lyki og fram til upphafs fæðingarorlofs. Ekki yrði önnur ályktun dregin af lögunum en að réttur til leyfis frá launaðri vinnu gæti hafist og lokið hvenær sem er í tilteknum mánuði. Umrædd heimild ætti því ekki aðeins við fram að fyrsta degi þess mánaðar sem fæðingarorlof hæfist heldur fram að upphafi fæðingarorlofs, sem gæti hafist hvenær sem er í mánuði. Úrskurður úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála hefði því verið reistur á forsendu sem ekki væri í samræmi við lög.
Umboðsmaður benti jafnframt á að í úrskurði nefndarinnar hefði ekki verið tekin rökstudd afstaða til þeirrar málsástæðu A að umrædd heimild ætti við í máli hans. Um hefði verið að ræða eina af meginmálsástæðum hans í kæru til nefndarinnar og hún hefði getað haft þýðingu fyrir úrlausn málsins. Rökstuðningur nefndarinnar hefði því ekki verið í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga.
Að lokum tók umboðsmaður fram að A hefði ritað upplýsingar um umræddar launabreytingar á umsókn sína um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Því hefði verið tilefni fyrir sjóðinn að vekja athygli A á þeirri afstöðu sjóðsins að launabreytingarnar myndu leiða til kröfu um endurgreiðslu ofgreiddra fjárhæða úr sjóðnum eða eftir atvikum afla frekari upplýsinga frá honum um þetta atriði. Meðferð málsins hjá Fæðingarorlofssjóði hefði því ekki verið í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnsýslulaga.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að taka mál A til meðferðar að nýju, setti hann fram slíka beiðni. Jafnframt beindi hann því til nefndarinnar að hafa sjónarmiðin sem rakin væru í álitinu í huga við úrlausn sambærilegra mála í framtíðinni. Þá ákvað umboðsmaður að kynna Fæðingarorlofssjóði álitið og mæltist til þess að betur yrði gætt að leiðbeiningarskyldu sjóðsins í framtíðinni.