Almannatryggingar. Stjórnsýslukæra. Lögvarðir hagsmunir.

(Mál nr. 8178/2014)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga í enduruppteknu máli en nefndin hafði vísað málinu frá á þeim grundvelli að úrlausn þess hefði ekki lengur raunverulega þýðingu fyrir hana. Athugun umboðsmanns beindist að því hvort frávísunin hefði verið í samræmi við lög.

Í eldri úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli A hafði nefndin staðfest niðurstöðu Tryggingastofnunar ríkisins um að tilteknar greiðslur sem A fékk frá Noregi, þ.e. svokallaður viðbótarlífeyrir, teldust tekjur sem skertu lífeyrisgreiðslur hennar frá tryggingastofnun hér á landi. Undir rekstri hins endurupptekna máls hjá nefndinni tók norska tryggingastofnunin þá ákvörðun að hætta greiðslum á viðbótarlífeyri til A þar sem hún uppfyllti ekki lagaskilyrði en að A yrði ekki endurkrafin um þær greiðslur sem hún hefði nú þegar þegið vegna þess að það hefði hún gert í góðri trú. Í framhaldinu endurreiknaði Tryggingastofnun ríkisins lífeyrisgreiðslur A hér á landi í samræmi við breyttar forsendur frá miðju ári 2014. Vegna þessa taldi úrskurðarnefndin að A ætti ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um það hvort viðbótarlífeyrir í Noregi ætti að koma til frádráttar lífeyrisgreiðslum hér á landi.

Umboðsmaður benti á að þrátt fyrir að A hefði fengið nýja úrlausn frá Tryggingastofnun ríkisins, þar sem tekið væri tillit til breyttra forsendna fyrir árið 2014, stæði eftir það álitaefni hvaða áhrif þær greiðslur sem hún fékk frá Noregi fyrir þann tíma hefðu átt að hafa á fjárhæð lífeyrisgreiðslna hennar frá Tryggingastofnun ríkisins. Væri raunin sú að þessar greiðslur hefðu ekki átt að skerða lífeyrisgreiðslur A hér á landi fram til miðs árs 2014 leiddi af þeirri niðurstöðu að A kynni að eiga rétt á greiðslu vangreiddra bóta. Þar sem eldra mál A hefði verið endurupptekið og nýja málinu vísað frá hefði ekki verið leyst efnislega úr þessu álitaefni og þá miðað við þær forsendur sem lægju nú fyrir. Það var niðurstaða umboðsmanns að A hefði haft lögvarða hagsmuni af úrlausn úrskurðarnefndarinnar um þetta atriði og því hefði úrskurður nefndarinnar ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður mæltist til þess að úrskurðarnefndin tæki mál A til nýrrar meðferðar, kæmi fram beiðni frá henni þess efnis, og leysti þá úr því í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Þá mæltist hann til þess að úrskurðarnefndin hefði þessi sjónarmið framvegis í huga í störfum sínum.