A kvartaði yfir synjun stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um greiðslu lífeyris eftir móður hans skv. heimild í 1. málsl. 7. mgr. 27. gr. laga nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.
Umboðsmaður rakti ákvæði 1. málsl. 7. mgr. 27. gr. laga nr. 1/1997 þar sem stjórn sjóðsins er veitt heimild til greiðslu lífeyris til hlutaðeigandi eins og um ekkju eða ekkil væri að ræða hafi sjóðfélagi verið utan hjónabands við andlátið en einstæð móðir hans, ógift systir hans eða annar ógiftur aðili hefur sannanlega annast heimili hans um árabil, þó ekki skemur en fimm ár. Vék hann að gildissviði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og taldi ljóst að líta yrði á það vald, er Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins væri fengið með lögum nr. 1/1997 til að taka ákvörðun um rétt sjóðfélaga til lífeyris, sem opinbert vald til töku stjórnvaldsákvörðunar í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Væri því ótvírætt að stjórn sjóðsins væri bundin af fyrirmælum stjórnsýslulaga og almennum reglum stjórnsýsluréttar þegar hún tæki ákvörðun um rétt sjóðfélaga til greiðslu lífeyris og um rétt annarra er leiddu rétt sinn af lífeyrisréttindum sjóðfélaga.
Samkvæmt gögnum málsins var synjun stjórnar sjóðsins á því byggð að ekki hefði verið uppfyllt það lagaskilyrði greinarinnar að A hefði „sannanlega annast heimili” móður sinnar. Af svari stjórnar sjóðsins til umboðsmanns mátti ráða að út frá því hefði verið gengið að sjóðfélagi þyrfti að hafa verið aðalfyrirvinna heimilisins og að hinn eftirlifandi einstaklingur yrði að hafa verið inni á heimilinu og háður framfærslu hins látna til að hann yrði talinn hafa „annast heimili“ sjóðfélaga. Kom þar jafnframt fram að til að varpa ljósi á hvort sjóðfélagi hafi verið aðalfyrirvinna heimilisins og hvort umsækjandi um greiðslu lífeyris hafi verið inni á heimilinu en háður framfærslu hins látna væri litið til skattskýrslna beggja aðila fimm ár aftur í tímann og metið út frá tekjum þeirra á því tímabili hvort skilyrðið væri uppfyllt.
Umboðsmaður taldi að þótt fallast mætti á að upplýsingar um tekjur gætu varpað einhverju ljósi á það hvort umsækjandi um lífeyri hefði „annast heimili” sjóðfélaga þá væri ófært að ganga alfarið út frá slíkum upplýsingum. Augljóst væri að þótt hinn eftirlifandi sambúðaraðili hefði haft einhverjar tekjur, jafnvel hærri en sjóðfélagi, kynni hann að hafa „annast heimili“ sjóðfélaga í venjulegri merkingu þess orðalags. Taldi umboðsmaður því að stjórn sjóðsins hefði ekki getað synjað A um lífeyri eftir móður hans með vísan til framangreinds lagaskilyrðis án þess að afla frekari gagna er gátu upplýst hvort A kynni að hafa „annast heimili“ móður sinnar um árabil áður en hún lést, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.
Með hliðsjón af skýringum stjórnar lífeyrissjóðsins taldi umboðsmaður rétt að víkja nokkrum orðum að heimild stjórnar sjóðsins til greiðslu lífeyris eftir að staðreynt hefði verið að lögbundin skilyrði varðandi aðild að þeim réttindum, sem mælt væri fyrir um í greininni, væru uppfyllt. Túlkun lífeyrissjóðsins á ákvæðinu gerði ráð fyrir því að það væri komið undir frekara mati stjórnarinnar hvort rétt væri að greiða viðkomandi lífeyri að uppfylltum lögbundnum skilyrðum þess. Með hliðsjón af orðalagi ákvæðisins féllst umboðsmaður á að stjórninni væri heimilt að leggja frekara mat á umsóknir á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og þannig koma í veg fyrir óeðlilegar niðurstöður í einstaka tilvikum. Hins vegar taldi hann samræmast best vönduðum stjórnsýsluháttum að samþykktar yrðu ákveðnar viðmiðunarreglur fyrir lífeyrissjóðinn um það mat þar sem þess yrði þó gætt að hið einstaklingsbundna mat yrði ekki afnumið eða takmarkað verulega. Taldi umboðsmaður að ekki yrði séð af gögnum málsins að stjórn sjóðsins hefði afmarkað með skýrum hætti hvernig beita skyldi lagaheimildinni með tilliti til málefnalegra sjónarmiða.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til stjórnar sjóðsins að hún tæki umsókn A til athugunar á ný, kæmi fram ósk um það frá honum, og hagaði þá afgreiðslu þeirrar umsóknar í samræmi við þau sjónarmið sem fram kæmu í álitinu.