A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir áminningu sem forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) veitti honum í starfi sem yfirlæknir hjá Heilsugæslunni X. Áminningin var byggð á þremur ástæðum sem vörðuðu háttalag A og framgöngu í starfi í tengslum við boðað verkfall móttökuritara hjá stofnuninni.
A var í fyrsta lagi veitt áminning vegna ummæla sem fram komu í tveimur tölvubréfum sem hann sendi samstarfsfólki sínu innan HH í tilefni af fyrirhuguðu verkfalli móttökuritara. Umboðsmaður taldi að með umræddum tölvubréfum hefði A verið að koma á framfæri persónulegum skoðunum sínum annars vegar um hvernig hann teldi að haga þyrfti starfsemi Heilsugæslunnar X í ljósi þess ágreinings sem var í málinu á milli yfirstjórnar HH og stéttarfélags móttökuritara um framkvæmd verkfallsins og hins vegar um möguleg viðbrögð lækna innan HH í tilefni af boðuðu verkfalli. Þegar tölvubréf A hefðu verið send höfðu leiðbeiningar yfirstjórnar um með hvaða hætti starfsemi heilsugæslunnar yrði háttað meðan á verkfalli stæði ekki legið fyrir. Í ljósi þessa og efnis og tilefni tölvubréfanna fékk umboðsmaður ekki séð að A hefði óhlýðnast lögmætum fyrirmælum eða vanrækt starfsskyldur sínar. Umboðsmaður taldi að þegar litið væri m.a. til efnis þeirra ummæla sem fram komu í tölvubréfunum og samhengis þeirra að öðru leyti að tjáning A hefði verið innan þess svigrúms sem opinberir starfsmenn njóta samkvæmt tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Sú ákvörðun að veita A áminningu vegna tölvubréfanna hefði því ekki verið í samræmi við lög.
Áminningin var í öðru lagi byggð á þeirri ákvörðun A að mæta ekki á boðaðan fund yfirlækna. Umboðsmaður taldi að við mat á þessu atriði yrði að líta til þess að A hefði afboðað komu sína á fundinn með ákveðnum fyrirvara. Ekki yrði séð að A hefði fengið viðbrögð frá yfirstjórninni vegna afboðunar sinnar. Eðlilegt samræmi yrði að vera á milli þeirrar hegðunar sem til greina kæmi að áminna fyrir og þeirra úrræða sem gripið væri til, sbr. meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Umboðsmaður taldi því að ekki hefði verið nægilegt tilefni til að telja að A hefði óhlýðnast löglegu boði um að mæta á fundinn eða vanrækt skyldu sína. Það hefði því ekki verið í samræmi við lög að áminna A fyrir að mæta ekki á fundinn.
Áminningin var í þriðja lagi byggð á því að A hefði ekki fylgt fyrirmælum yfirstjórnar HH um framkvæmd heilbrigðisþjónustu á Heilsugæslunni X á meðan verkfallið stóð yfir. Það var niðurstaða umboðsmanns að á hefði skort að rannsókn HH á atvikum þessa liðar áminningarinnar hefði uppfyllt þær kröfur sem leiða af rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Meðan ekki hefði verið bætt úr þeim annmarka taldi hann ekki tilefni til að taka að öðru leyti afstöðu til þess hvort skilyrði hefðu verið til þess samkvæmt lögum og í samræmi við reglur um jafnræði og meðalhóf að áminna A á þessum grundvelli.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til HH að taka mál A til meðferðar að nýju kæmi fram ósk frá A þar um og að leyst yrði úr málinu í samræmi við það sem fram kæmi í álitinu. Jafnframt beindi hann því til heilsugæslunnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.