Lífeyrismál. Breytingar á löggjöf varðandi útreikning ellilífeyris.

(Mál nr. 46/1988)

Máli lokið með áliti, dags. 30. nóvember 1989.

A taldi sig órétti beitta, þar sem til grundvallar útreikningi á lífeyri hennar hefðu verið lagðar lagareglur, sem tekið höfðu gildi, er hún hóf töku lífeyris, en ekki eldri reglur, sem verið hefðu henni hagstæðari. Umboðsmaður taldi, að stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefði farið að lögum við ákvörðun ellilífeyris til A, þar sem samkvæmt 9. gr. laga nr. 47/1984 væri ljóst, að breyting sú, sem gerð var með lögum nr. 47/1984 á lögum nr. 29/1963 um Lífeyrissjóðstarfsmanna ríkisins, tæki til þeirra, er hófu töku lífeyris eftir gildistöku laga nr. 47/1984. Eins og lífeyrisrétti A var háttað, taldi umboðsmaður, að löggjafanum hefði ekki, að því er þau varðaði, verið óheimilt samkvæmt 67. gr. stjórnarskrárinnar að breyta reglum um fjárhæð lífeyris með þeim hætti, sem gert var með 4. gr. laga nr. 47/1984 um breytingu á lögum nr. 29/1963. Umboðsmaður taldi því, að ekki væri tilefni til afskipta af hans hálfu á grundvelli II. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.

I. Kvörtun og málavextir.

Hinn 18. október 1988 sneri A sér til mín og kvartaði yfir því, að stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hefði skert áunnin lífeyrisréttindi sín. Hinn 31. ágúst 1986 lét A af störfum sem kennari og hafði þá í samtals 28 ár greitt í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Frá því að A hóf töku lífeyris 1. september 1986 var lífeyrir hennar ákveðinn 41,25% fullra launa. A var ekki sátt við ákvörðun á lífeyri til hennar og ritaði af því tilefni stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins bréf, dags. 11. maí 1987, þar sem hún fór þess á leit, að réttur til eftirlauna yrði endurmetinn. Taldi A, að samkvæmt þeim lögum, er gilt hefðu nærfellt allan þann tíma, sem hún greiddi til lífeyrissjóðsins, ætti lífeyrir hennar að vera 56% fullra launa. Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafnaði beiðni A með bréfi, dags. 15, júní 1987, en þar sagði:

„Ekki er unnt að verða við ósk yðar. Lífeyrir yðar er reiknaður út skv. þeim reglum sem í gildi voru þegar þér hófuð töku lífeyris. Þegar lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins var breytt með lögum nr. 47/1984 var sérstaklega tekið fram í gildistökuákvæði laganna að þau giltu um þá sem hefja töku lífeyris eftir gildistöku þeirra.“

II. Athugun umboðsmanns Alþingis.

Hinn 10. ágúst 1989 ritaði ég stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins bréf, þar sem ég mæltist til þess með vísun til 7. og 9. gr. laga nr.13/1987 um umboðsmann Alþingis, að stjórn sjóðsins gerði grein fyrir afstöðu sinni til kvörtunar A og léti mér í té þau gögn, er mál þetta vörðuðu.

Stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins svaraði mér með bréfi, dags. 4. september 1989, sem hljóðar þannig:

„A greiddi í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins 1.1.53-31.12.53, 1.9.57-31.8.65 og 1.9.67-31.8.86, eða samtals í 28 ár. Hún vann ýmist í fullu starfi eða hluta starfi. Starfshlutfall var breytilegt frá 50% starfi og upp í 100% starf. A hefur fengið greiddan lífeyri frá 1.9.1986 og er lífeyrisprósenta hennar 41,25% fullra launa.

Ákvörðun lífeyrisréttar A fer eftir ákvæðum 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, sbr. 4. gr. laga nr. 47/1984. Þar segir að lífeyrisprósenta fari eftir iðgjaldagreiðslutíma og starfshlutfalli sjóðfélagans og sé 2% fyrir hvert ár í fullu starfi sem iðgjöld hafa verið greidd fyrir, en hlutfallslega lægri fyrir minna starfshlutfall. Samkvæmt gildistökuákvæði breytingarlaganna nr. 47/1984, gilda þau um þá sem hefja töku lífeyris eftir gildistöku þeirra. A er í þeim hópi sjóðfélaga.

Kvörtun A byggist á því, að 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963 hafi verið breytt þannig með lögum nr. 47/1984, að breytingin hafði áhrif á lífeyrisrétt hennar. Það er rétt, að fyrir breytinguna 1984 var lífeyrisprósenta ákvörðuð með öðrum hætti en gert er í dag. Þá eins og nú fór lífeyrisprósenta eftir iðgjaldagreiðslutíma. Hins vegar var ekki miðað við starfshlutfall á hverjum tíma, heldur einungis síðasta starfshlutfall. En þessu var breytt með lögum nr. 47/1984 og gildistökuákvæðið segir ótvírætt til um til hverra breytingin nái.“

III. Álit umboðsmanns Alþingi.

Er A hóf greiðslu í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins á árinu 1953, voru í gildi lög nr. 101/

1943 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í 2. mgr. 12. gr. laga nr. 101/1943 voru þau fyrirmæli, að upphæð ellilífeyris væri hundraðshluti af meðallaunum hlutaðeigandi sjóðfélaga síðustu 10 starfsár hans og færi hundraðshlutinn hækkandi eftir því sem starfstíminn yrði lengri. Með lögum nr. 40/1945 og lögum nr. 32/1955 var bætt við nýrri málsgrein í lok 12. gr. laga nr. 101/1943. Var þar ákveðið, að upphæð ellilífeyris mætti aldrei vera hærri en 75% af launum þeim, sem á hverjum tíma fylgdu embætti því eða starfi, er sjóðfélaginn léti af.

Lög nr. 101/1943 ásamt breytingum voru síðan endurútgefin sem lög nr. 64/1955 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins og var kveðið á um upphæð ellilífeyris í 12. gr. laganna. Lög nr. 29/1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins leystu af hólmi lög nr. 64/1955. Um upphæð ellilífeyris var fjallað í 3. mgr. 12. gr. laganna.

Með 7. gr. bráðabirgðalaga nr. 67/1980 og síðar 6. gr. laga nr. 98/1980 um breyting á lögum nr. 29 29. apríl 1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. lög nr. 49/1973 og nr. 21/1975, var 12. gr. laga nr. 29/1963 breytt og kveðið á um upphæð ellilífeyris í 6. og 7. mgr.12. gr.

Loks var 6. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963 breytt með 4. gr. laga nr. 47/1984 um breyting á lögum nr. 29 29. apríl 1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. lög nr. 49/1973, nr. 21/1975, nr. 28/1978 og nr. 98/1980.

IV. Niðurstaða.

Í niðurstöðu álits míns, dags. 30. nóvember 1989, sagði svo:

„Samkvæmt ... ákvæðum 9. gr. laga nr. 47/1984 skulu þær breytingar, sem gerðar voru með þeim lögum á lögum nr. 29/1963, taka til lífeyrisþega, er hefja töku lífeyris eftir gildistöku breytinganna. Ákvörðun stjórnar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins á lífeyri A er í samræmi við reglur laga nr. 47/1984 og var því rétt að lögum. Eru ekki rök til að gagnrýna þá ákvörðun.

Með lögum nr. 47/1984 var lögum nr. 29/1963 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins breytt á þá leið meðal annars, að lífeyrir skyldi miðaður við meðalhlutfall af fullu starfi þann tíma, sem starfsmaður hafði verið í starfi, er veitti rétt til lífeyris, sbr. 4. gr. laga nr. 47/1984. Áður hafði lífeyrir miðast við þau laun, sem fylgt höfðu starfi því, sem starfsmaður gegndi síðast, sbr. 3. mgr.12. gr. laga nr. 29/1963, en síðastgreint ákvæði var skýrt svo, að um útreikning lífeyris færi eftir því, hvort starfsmaður gegndi fullu starfi eða hluta úr starfi (sjá Alþt.1983, A-deild, bls. 2561).

Af framansögðu verður ráðið, að miðað við framangreinda skýringu á 3. mgr. 12. gr. laga nr. 29/1963, eins og þau ákvæði voru fyrir breytinguna með lögum nr. 47/1984, þá hefði A verið betur sett samkvæmt þessum eldri reglum, ef hún hefði síðast gegnt fullu starfi, áður en hún hóf töku lífeyris. Ef eldri reglur hefðu enn verið í gildi, þegar hún hóf töku lífeyris 1. september 1986, hefði hún fengið 56% fullra launa í stað 41,25% fullra launa, sem hún nýtur í raun. Ef A hefði hafið töku lífeyris rétt fyrir gildistöku laga nr. 47/1984, hefði hún fengið milli 51 og 52% fullra launa.

Aðstaðan er hér sú, að breyttar reglur laga nr. 47/1984 gátu ýmist leitt til hagstæðari eða óhagstæðari niðurstöðu fyrir lífeyrisþega en eldri reglur, allt eftir því, hvort meðalhlutfall allrar starfsævinnar (yngri reglur) reyndist hærra eða lægra en síðasta starfshlutfall (eldri reglur). Við gildistöku hinna nýju reglna laga nr. 47/1984 var með öllu óvíst, miðað við þá aðstöðu, sem A var í, hvort eldri eða yngri reglurnar myndu reynast hagstæðari. Þegar nýju reglurnar gengu í gildi, hafði A hvorki hafið töku lífeyris né átti hún þá rétt á að láta af störfum og hefja töku lífeyris. Ég tel því, að lífeyrisréttindum A hafi þess vegna verið þannig háttað, að löggjafanum hafi ekki, að því er þau varðaði, verið óheimilt samkvæmt 67. gr. stjórnarskrárinnar að breyta reglum um fjárhæð lífeyris með þeim hætti, sem gert var með 4. gr. laga nr. 47/1984. Niðurstaða mín er því sú, að ekki sé tilefni til afskipta af minni hálfu á grundvelli 11. gr. laga nr. 13/1987 um umboðsmann Alþingis.“