Gjafsókn. Lagaskilyrði fyrir gjafsókn. Aðgangur að dómstólum. Stjórnarskrá. Mannréttindasáttmáli Evrópu.

(Mál nr. 3070/2000)

A kvartaði yfir synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á umsókn hans um gjafsókn í tilefni af málshöfðun hans vegna meints skorts á upplýsingagjöf læknis um mögulegar afleiðingar tiltekinnar læknisaðgerðar. Var synjunin alfarið byggð á því að skilyrði upphafsmálsliðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, um að málstaður hans gæfi nægilegt tilefni til málshöfðunar, væri ekki uppfyllt.

Umboðsmaður rakti ákvæði 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991. Taldi hann að gjafsóknarnefnd og eftir atvikum dóms- og kirkjumálaráðuneytið yrði að túlka og beita framangreindu skilyrði laganna með þeim hætti að sérstaklega væri stefnt að því að réttur manna til aðgangs að dómstólum yrði raunhæfur og virkur. Yrði þá einkum að hafa í huga að þessi réttur hefði nú fengið stjórnarskrárvernd, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, og að náin tengsl væri á milli þess ákvæðis og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Þá taldi umboðsmaður að skilyrði upphafsmálsliðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 yrði ekki skilið með þeim hætti að það gerði beinlínis ráð fyrir að gjafsóknarnefnd skyldi meta heildstætt með sama hætti og dómstóll sönnunaratvik þess máls sem væri tilefni beiðni um gjafsókn og tæki afstöðu til tilefnis málshöfðunar á þeim grundvelli einum, sbr. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 30. júlí 1998 í máli Aerts gegn Belgíu. Úrlausn um raunverulegan sönnunarvanda og lagalegan ágreining ætti þannig að vera í höndum dómstóla en ekki stjórnvalda þegar beiðni um gjafsókn væri afgreidd. Tók umboðsmaður fram að leggja yrði til grundvallar að lög nr. 91/1991 veittu stjórnvöldum aðeins mat um það hvort málstaður gjafsóknarbeiðanda væri við fyrstu sýn bersýnilega haldlítill. Við mat á „tilefni málshöfðunar“ bæri stjórnvöldum einkum að líta til lagareglna sem girtu fyrir framlagningu tiltekinna sönnunargagna eða málsástæðna sem gjafsóknarbeiðandi ætlar sér að byggja málstað sinn á eða til þess hvort hafðar séu í frammi kröfur fyrir dómi sem sýnilegt er að séu ódómhæfar eða að öðru leyti vanreifaðar. Væri hins vegar til staðar raunverulegur vafi um rétt atvik máls, með tilliti til sönnunargagna málsins og aðstæðna að öðru leyti, og þá hvort málshöfðun gæti að lögum skilað þeim árangri sem gjafsóknarbeiðandi vonaðist eftir taldi hann að gjafsóknarnefnd yrði jafnan að skýra slíkan vafa gjafsóknarbeiðanda í hag og leysa úr beiðninni að öðru leyti á grundvelli hinna valkvæðu skilyrða a- og b-liðar 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991.

Umboðsmaður taldi að ekki yrði önnur ályktun dregin af forsendum í umsögn gjafsóknarnefndar en að nefndin hefði ákveðið að fara þá leið í umfjöllun sinni um beiðni A að leggja með beinum og sjálfstæðum hætti mat á sönnunarstöðu málsins að virtum þeim gögnum sem fylgdu gjafsóknarbeiðninni. Tók hann fram að niðurstaða nefndarinnar hefði alfarið verið á því byggð að gögn málsins gæfu ekki nægjanlega vísbendingu um að mistök hefðu átt sér stað við framkvæmd skurðaðgerðar á A eða að ekki hefði verið gætt að því að veita honum viðhlítandi upplýsingar um aðgerðina sjálfa og mögulegar afleiðingar ef hún yrði framkvæmd. Í ljósi upphafsskilyrða 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991 taldi umboðsmaður að úrlausn gjafsóknarnefndar hefði gengið lengra að efni til en heimilt var. Taldi hann að ekki yrði annað ráðið af gögnum málsins en að raunverulegur vafi hefði verið til staðar um það hvort A voru veittar fullnægjandi upplýsingar af hálfu læknis um afleiðingar skurðaðgerðarinnar. Þá benti hann á að samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, skal þess getið í sjúkraskrá sjúklings að upplýsingar samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna hafi verið gefnar. Af gögnum málsins yrði ekki séð að gjafsóknarnefnd hefði haft undir höndum sjúkraskrá A þegar hún lagði mat sitt á tilefni málshöfðunar hans. Gat nefndin því ekki heldur byggt synjun sína á því að upplýsingar úr sjúkraskrá bentu til þess að slík fullyrðing hans ætti ekki við rök að styðjast og því væri málshöfðun hans bersýnilega haldlítil.

Með hliðsjón af framangreindu taldi umboðsmaður ljóst að raunverulegur sönnunarvafi hefði verið til staðar um hvort gætt hefði verið lögbundinnar upplýsingaskyldu læknis gagnvart A þegar beiðni hans um gjafsókn lá fyrir gjafsóknarnefnd. Taldi hann með tilliti til orðalags upphafsskilyrðis 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, eins og skýra bæri það með tilliti til lagasjónarmiða um að réttur manna til aðgangs að dómstólum væri raunhæfur og virkur, sbr. 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, að gjafsóknarnefnd hefði, eins og á stóð, ekki getað lagt til grundvallar að nægjanlegt tilefni hefði skort til umræddrar málshöfðunar A með tilliti til þeirra laga- og sönnunarreglna sem við áttu. Átti nefndin þannig að skýra umræddan vafa A í hag og leggja til grundvallar að hann hefði sýnt fram á með fullnægjandi hætti að nægilegt tilefni væri til málshöfðunar í merkingu 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991. Bar gjafsóknarnefnd í kjölfarið að fjalla um beiðni A á grundvelli hinna valkvæðu skilyrða a- og b-liðar sama ákvæðis.

Varð það því niðurstaða umboðsmanns að ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins um að hafna beiðni A um gjafsókn með vísan til 4. mgr. 125. gr. laga nr. 91/1991 hefði ekki verið í samræmi við lög. Beindi hann þeim tilmælum til ráðuneytisins að það tæki mál A til endurskoðunar, kæmi fram ósk þess efnis frá honum, og að meðferð þess yrði þá hagað í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu.

Í framhaldi af áliti mínu leitaði B hæstaréttarlögmaður, fyrir hönd A, til dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og óskaði eftir gjafsókn á ný. Sagði í bréfinu að þess væri „óskað að gjafsóknin næði til kostnaðar við flutning málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, og verði sá kostnaður ákvarðaður í Hæstarétti.“ Til stuðnings beiðni sinni vísaði lögmaðurinn meðal annars til ofangreinds álits míns. Með bréfi, dags. 19. nóvember 2001, leitaði B, fyrir hönd A, til mín og kvartaði yfir því að ráðuneytið hefði ekki svarað erindinu. Í kjölfar svars ráðuneytisins til B, dags. 7. janúar 2002, lauk ég umfjöllun minni um málið. Tók ég þar fram að ég hefði með þeirri úrlausn ekki tekið afstöðu til efni svarbréfs ráðuneytisins eða afgreiðslu gjafsóknarnefndar á hinu síðara erindi A.

Með bréfi sem barst mér 23. janúar 2002 gerði lögmaður A efnislegar athugasemdir við synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 7. janúar 2002, á beiðni A um gjafsókn í tilefni af áfrýjun héraðsdóms í máli hans til Hæstaréttar. Í erindinu var því haldið fram að með framangreindri afgreiðslu lægi ljóst fyrir að ráðuneytið hygðist hafa álit mitt í máli nr. 3070/2000 að engu. Ég lauk umfjöllun minni um þetta síðastnefnda erindi A með bréfi, dags. 21. maí 2002. Þar tók ég fram að umfjöllunarefnið í framangreindu áliti hefði verið synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á beiðni A um gjafsókn til höfðunar umrædds máls fyrir héraðsdómi. Hefði það verið niðurstaða mín að sú afgreiðsla hefði ekki verið í samræmi við lög. Synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 7. janúar 2002, hefði hins vegar aðeins beinst að synjun á gjafsókn til áfrýjunar málsins fyrir Hæstarétti. Í ljósi þessa liti ég svo á að umrædd synjun á beiðni A um gjafsókn í tilefni af áfrýjun héraðsdómsins til Hæstaréttar hefði ekki falið í sér að horft var fram hjá áliti mínu enda voru þá ný gögn, þ.e. dómur héraðsdóms, komin fram í málinu.

Að síðustu sagði í bréfi mínu:

„Ég tek fram að með áliti mínu frá 26. júní 2001 í máli nr. 3070/2000 lauk ég umfjöllun minni um kvörtun [A] að því er varðaði synjun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins á því að veita honum gjafsókn í tilefni af höfðun umrædds máls fyrir héraðsdómi. Þar var niðurstaða mín sú að synjunin hefði ekki verið í samræmi við lög. Ég minni á að lög nr. 85/1997 veita mér ekkert réttarskipandi vald til að fylgja álitum mínum eftir. Reynist það rétt að stjórnvöld hafi ekki í hyggju að bregðast við framangreindu áliti með þeim hætti sem tilmæli mín hljóðuðu um stendur yður eftir sá kostur að leita með umrætt mál til dómstóla.“