Umboðsmaður og starfsmenn hans sem sinna OPCAT-eftirliti fara innan nokkurra vikna í heimsókn í fangelsið að Sogni í Ölfusi til að kynna sér starfsemina þar.
Áður en til heimsóknarinnar kemur verður haldin kynning fyrir Fangelsismálastofnun á því hvað felst í eftirlitinu. Þetta verður fyrsta eftirlitsheimsókn umboðsmanns í fangelsi en fyrr á árinu var farið í slíka heimsókn í fangaklefa lögreglunnar á Hverfisgötu.
OPCAT-eftirlitið beinist að stöðum þar sem einstaklingar eru eða kunna að vera sviptir frelsi sínu. Heimsóknir umboðsmanns felast almennt að því að skoða aðstæður þeirra sem þar dvelja og þá einkum:
- Aðbúnað á staðnum, t.d. húsakost, fæði og hreinlæti.
- Samskipti við aðra sem dvelja á staðnum og starfsfólk en einnig aðra utan dvalarstaðar.
- Verklag sem tengist hvers konar öryggisráðstöfunum eða þvingunum en einnig skráningu og meðferð gagna um slík atriði.
- Heilsufar og aðgengi að heilbrigðisstarfsfólki ásamt kunnáttu þess, reynslu og viðveru.
- Virkni í vinnu, námi, meðferð og tómstundum.