27. maí 2022

OPCAT-eftirlit á Norðurlandi

Umboðsmaður og starfsfólk hans heimsótti þrjá staði á Akureyri og einn á Siglufirði í vikunni í tengslum við OPCAT-eftirlit hans með stöðum þar sem frelsissvipt fólk dvelur.

Farið var í fangageymslur lögreglunnar bæði á Akureyri og Siglufirði, geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri og öryggisvistun á vegum Akureyrarbæjar þar sem dvelja ósakhæfir einstaklingar sem hafa verið dæmdir til öryggisgæslu á viðeigandi stofnun. Var þetta jafnframt fyrsta eftirlitsheimsókn umboðsmanns í slíkt öryggisúrræði. Að þessu sinni var stofnunum ekki tilkynnt fyrirfram um nákvæma tímasetningu heimsóknanna heldur einungis að innlit væri fyrihugað á næstu tveimur mánuðum. Í heimsóknunum var rætt við bæði starfsfólk og vistmenn á viðkomandi stað, þar sem svo háttaði til, og allur aðbúnaður og starfsemi skoðuð.

„Þótt hér hafi verið um að ræða nánast fyrirvaralausar heimsóknir fengum við alls staðar góðar viðtökur og samvinna við stjórnendur og starfsmenn um framkvæmd og frekari upplýsingaöflun, ef henni var að skipta, var til fyrirmyndar. Þá var gott aðgengi að þeim sem dvelja á stöðunum. Ég held að óhætt sé að segja að stjórnendur upplifi þetta eftirlit umboðsmanns sem mikilvægan þátt í því að bæta þjónustuna sem stofnanirnar veita. Stundum þannig að umboðsmaður vekur einnig athygli á því sem betur má fara í lagaumhverfi og fjárhagslegum aðbúnaði. Jafnframt er auðvitað mikilvægt að þau sem dvelja á svona stofnunum viti að þau eru ekki gleymd og tröllum gefin, ef svo má að orði komast, og ég tel að við höfum náð því markmiði í heimsóknum okkar fyrir norðan“, segir Skúli Magnússon umboðsmaður.

Gerð verður skýrsla um hverja heimsókn þar sem greint verður frá því sem fyrir augu og eyru bar og eftir atvikum bent á leiðir til úrbóta í viðkomandi starfsemi. Skýrslur eru birtar á vef umboðsmanns þegar þær liggja fyrir.

  

  

Heimsóknir og skýrslur