21. desember 2022

Legudeild geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri enn í bráðabirgðahúsnæði

Húsnæði legudeildar geðdeildar Sjúkrahússins á Akureyri stenst ekki nútímakröfur m.a. með tilliti til aðgengis nauðungarvistaðra sjúklinga að útivist og virkni. Í heimsókn þangað vakti einnig sérstaka athygli hve stjórnendur og starfsfólk virðast leggja sig fram um að takmarka hvers konar inngrip og þvinganir gagnvart sjúklingum.

Þetta kemur fram í nýrri OPCAT-skýrslu þar sem sjónum er beint að legudeildinni en þar kann hluti sjúklinga að dveljast gegn vilja sínum. Aðbúnaður og umhverfi deildarinnar er snyrtilegt og þrifalegt en eins og fjallað er um í skýrslu umboðsmanns þá er hún enn í bráðabirgðahúsnæði sem ekki stenst nútímakröfur. Af því tilefni beinir umboðsmaður ýmsum tilmælum og ábendingum bæði til sjúkrahússins og heilbrigðisráðherra um að hugað verði að úrbótum á aðbúnaði. Meðal annars er mælst til þess að leitað verði leiða til að tryggja þeim sjúklingum, sem ekki mega fara út af deildinni, möguleika á daglegri útivist, virkni og endurhæfingu eftir því sem framast sé unnt.

Umboðsmaður vék í skýrslunni að fyrri ábendingum og tilmælum sínum til stjórnvalda um skort á skýrri lagaumgjörð um valdbeitingu, þvinganir og önnur inngrip í réttindi sjúklinga á geðdeildum. Í ljósi þess að þau mál eru komin í tiltekin farveg í heilbrigðisráðuneytinu ítrekaði hann ekki þau tilmæli sín að svo stöddu en áréttaði að óvissa um lagaheimildir starfsfólks að þessu leyti sé óviðunandi. Í heimsókninni hafi þó ekkert komið fram sem bendi til að sjúklingar séu beittir ómannlegri eða vanvirðandi meðferð á deildinni. Þvert á móti hafi mátt ráða að stjórnendur og starfsfólk tileinki sér almennt virðingu fyrir sjúklingum og leitist eftir samkomulagi og samstarfi við þá.

Ekki er starfrækt sérþjálfað varnarteymi í viðbrögðum og varnaraðgerðum gegn ofbeldi á legudeildinni líkt og á geðdeildum Landspítala. Ef upp koma erfið atvik þar sem t.d. þarf að þvinga sjúkling í lyfjagjöf er fengin aðstoð frá lögreglu eða öryggisfyrirtæki. Er því beint til sjúkrahússins að hætta að kalla til öryggisverði, sem ekki hafi fengið tilskylda þjálfun, til að yfirbuga sjúklinga sem og að takmarka eftir föngum aðkomu lögreglu að slíku. Þá þarf að tryggja að ráðgjafa nauðungarvistaðra sé tilkynnt svo fljótt sem verða má um slíka vistun og að sjúklingar fá fullnægjandi og skiljanlegar upplýsingar um rétt sinn til ráðgjafar og stuðnings.

Í skýrslunni er loks vakin athygli á þeim vanda á mörkum löggæslu og heilbrigðiskerfis sem umboðsmaður hefur orðið var við þegar í hlut á fólk sem lögregla þarf að hafa afskipti af en glímir við geðræn vandamál, stundum tengd fíkniefnaneyslu. Í ábendingum stjórnenda geðdeildarinnar kemur fram að þótt ekki teljist við hæfi að vista þessa einstaklinga í fangageymslum lögreglu eigi þeir ekki endilega heldur heima á heilbrigðisstofnun. Þannig þurfi mögulega að koma upp sérstökum úrræðum. Umboðsmaður áréttar að það sé ekki sitt að ákveða hvernig leysa eigi úr þessu en óviðunandi sé að fólk í haldi lögreglu, sem sýnilega þurfi á heilbrigðisþjónustu eða annars konar þjónustu að halda, dvelji í fangageymslum og fái ekki viðeigandi meðferð.

  

  

Skýrsla umboðsmanns um heimsókn á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri