Margvíslegar athugasemdir eru gerðar við aðbúnað og aðstæður fanga á Litla-Hrauni í nýrri eftirlitsskýrslu umboðsmanns. Húsakostur og heilbrigðisþjónusta eru að ýmsu leyti óviðunandi og bæta þarf snarlega úr aðbúnaði án tillits til þess hvort nýtt fangelsi rís á næstu árum eður ei. Þetta er fyrsta heildarskoðun umboðsmanns á Litla-Hrauni og starfsemi þess, en áður hefur verið farið þangað í tvær sértækar eftirlitsheimsóknir.
Í skýrslunni segir m.a. að huga verði að lágmarksviðhaldi húsnæðisins til að tryggja heilnæman og mannsæmandi aðbúnað og þá án tillits til þess hvort eða hvenær nýtt fangelsi verði tekið í notkun. Margvíslegar brotalamir eru á heilbrigðisþjónustu. Dæmi eru um langa bið eftir almennri læknis- og hjúkrunarþjónustu sem og tíma hjá tannlækni. Þá bendir umboðsmaður á að starfsfólk sem sinni lyfjagjöfum þurfi í það minnsta að fá viðeigandi fræðslu og þjálfun í þeim efnum. Þótt ljóst sé að geðheilbrigðisþjónusta hafi batnað með tilkomu geðheilsuteymis sé enn verulegur vandi til staðar sem birtist m.a. í því að einstaklingar sem þrífist ekki vel innan um aðra fanga séu vistaðir á öryggisdeild eða í öryggisklefa sem getur lagst þungt á þá sem glíma við andleg veikindi. Útilokað sé að vinna með vanda þeirra verst stöddu innan fangelsisins og almennt aðgengi fanga að geðheilbrigðisþjónustu, t.a.m. á geðdeildum, sé verulega skert. Mælst er til að ráðherrar heilbrigðis- og dómsmála tryggi að fangar fái sambærilegt aðgengi og aðrir borgarar að heilbrigðisþjónustu.
Umboðsmaður minnir á að skaðleg áhrif einangrunar vegna vistunar í öryggisklefa eykst eftir því sem hún varir lengur sem birtist m.a. í aukinni sjálfsvígstíðni. Þar að auki leggist slík einangrun sérstaklega þungt á fanga með geðrænan vanda. Eftirlit heilbrigðisstarfsfólks skorti í sumum tilfellum þegar fangar séu settir í einangrun sem auki líkur á ómannlegri og vanvirðandi meðferð. Mælst er til að hið minnsta daglega sé metið hvort áframhaldandi vistun í öryggisklefa sé nauðsynleg og læknir ávallt kallaður til við upphaf hennar. Þá telur umboðsmaður að mikil vímuefnaneysla og -vandi setji svip sinn á starfsemi fangelsins, meðferðar- og stuðningsúrræði skorti. Við þessu þurfi að bregðast.
Í skýrslunni kemur fram að fangar virðast almennt vera illa eða ekki upplýstir um kvörtunarleiðir og treysta því ekki að trúnaður ríki um kvartanir. Mælst er til að útbúið verði verklag sem byggi upp traust á meðferð kvartana og föngum kynnt það skilmerkilega. Einnig sé mikilvægt að erlendir fangar fái allar viðeigandi upplýsingar, þegar þeir koma í fangelsið, á tungumáli sem þeir skilja.
Fleira ber á góma í skýrslunni og má þar nefna ábendingu um að rýmka opnunartíma Barnakots þar sem fangar geti hitt börn sín við betri aðstæður en inni í fangelsinu. Kerfisbundinni líkamsleit verði hagað með hliðsjón af aðstæðum hverju sinni, leit í klefum verði í samræmi við lög og þóknanir fyrir nám og vinnu og fjárhæð dagpeninga verði endurskoðuð með hliðsjón af tillögum stýrihóps um málefni fanga. Þá eru ítrekuð fyrri tilmæli um að horfið sé frá því að beita eingöngu almennum viðmiðum um gerð meðferðaráætlana heldur sé einnig horft til einstaklingsbundinna þátta.
Óskað er eftir viðbrögðum stjórnvalda við ábendingum og tilmælum í skýrslunni eigi síðar en 1. júní 2024.
Skýrsla umboðsmanns um heimsókn í fangelsið Litla Hraun