Heilbrigðismál. Málshraði.

(Mál nr. 12548/2023)

Kvartað var yfir töfum á því að komast í greiningu og meðferð hjá ADHD-teymi Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu en fyrir lá beiðni viðkomandi um greiningu frá nóvember 2020. 

Ekki varð annað séð en tafirnar stöfuðu af almennum orsökum en væru ekki bundnar við þetta mál sérstaklega. Ekki voru því forsendur til að taka kvörtunina til frekari umfjöllunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. janúar 2024.

  

Þess skal getið að á grundvelli frumkvæðisheimildar sinnar óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum frá heilbrigðisráðuneytinu um biðtíma fullorðinna eftir ADHD-greiningu. Sjá nánar hér.

  

   

Vísað er til kvörtunar yðar sem barst umboðsmanni Alþingis 6. janúar 2023 og lýtur að töfum á því að þér komist í greiningu og meðferð hjá ADHD-teymi Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu, en fyrir liggur að beiðni yðar um greiningu er frá 20. nóvember 2020. Líkt og fram kom í tölvubréfi starfsmanns umboðsmanns til yðar 11. janúar sl. fórst fyrir að skrá kvörtun yðar í málaskrá embættisins þegar hún barst og hefur hún því ekki verið tekin til athugunar fyrr en nú. Er beðist velvirðingar á þessum mistökum.

Kvörtun yðar fylgdu afrit af fyrirspurnum yðar til ADHD-teymisins um hvenær þér mættuð eiga von á að því að vera boðaður í greiningu og svörum starfsfólks teymisins við þeim. Þá hafið þér jafnframt sent umboðsmanni afrit af tölvubréfum yðar til teymisins á árinu 2023 og nú í upphafi ársins 2024.

Mér er kunnugt um að biðtími eftir ADHD-greiningu er langur. Hins vegar bera gögn sem fylgdu kvörtun yðar, svo og þau sem hafa borist í tengslum við hana, ekki annað með sér en að mál yðar sé í farvegi og að ADHD-teymið hafi reglulega svarað fyrirspurnum yðar og upplýst yður um stöðu yðar á biðlista eftir greiningu. Þá verður ekki annað ráðið af svörum teymisins við fyrirspurnum yðar en að þær tafir sem orðnar eru á máli yðar séu af almennum orsökum en séu ekki bundnar við mál yðar sérstaklega. Að virtum þeim úrræðum sem umboðsmaður Alþingis býr yfir við aðstæður sem þessar tel ég þess vegna ekki forsendur til taka kvörtun yðar til frekari umfjöllunar.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á máli þessu lokið, sbr. til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.