Opinberir starfsmenn. Breytingar á störfum. Ráðning í starf innkaupastjóra. Auglýsing á lausum störfum.

(Mál nr. 3684/2003 og 3714/2003)

A kvartaði yfir því að við stofnun sérstaks starfs innkaupastjóra við tækni- og innkaupadeild Fjórðungssjúkrahússins á X og ráðningu C í starfið hefði verið fram hjá honum gengið. Taldi hann sig í raun hafa gegnt starfi innkaupastjóra á sjúkrahúsinu „án viðurkenningar“ í 28 ár. B kvartaði yfir því að starf innkaupastjóra hafði ekki verið auglýst áður en C var ráðinn í það en hún hefði viljað fá tækifæri til að sækja um það. Umboðsmaður ákvað að fjalla um kvartanirnar í einu áliti. Ákvað hann að taka til athugunar hvort sú breyting sem gerð var á starfi A þegar starf innkaupastjóra var stofnað hefði verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Þá beindist athugunin einnig að því hvort skylt hafi verið að auglýsa starf innkaupastjóra laust til umsóknar áður en C var ráðinn til að gegna því.

Umboðsmaður taldi ljóst að við stofnun starfs innkaupastjóra hefðu orðið verulegar breytingar á starfssviði A. Það var mat umboðsmanns að breytingarnar hefðu þó ekki haft bein eða tafarlaus áhrif á launakjör hans eða réttindi í skilningi niðurlagsákvæði 19. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá taldi umboðsmaður að breytingarnar hefðu ekki falið í sér ákvörðun í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og hafi forstjóra sjúkrahússins því verið óskylt að haga meðferð málsins í samræmi við kröfur þeirra laga. Umboðsmaður benti á að skipulagsbreytingar leiddu oft til þess að óhjákvæmilegt væri að breyta störfum starfsmanna stofnunar. Hefðu stjórnvöld allrúmar heimildir til þess samkvæmt 19. gr. laga nr. 70/1996. Þær breytingar mættu þó ekki ganga lengra eða vera meira íþyngjandi í garð þeirra starfsmanna sem í hlut ættu en nauðsyn bæri til, sbr. almenna meginreglu um meðalhóf í stjórnsýslu. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að álíta að framangreindar breytingar sem gerðar voru á störfum og verksviði A hefðu stangast á við grundvallarreglur stjórnsýsluréttar eða vandaða stjórnsýsluhætti.

Umboðsmaður taldi að þegar til starfs innkaupastjóra við sjúkrahúsið var stofnað hafi starfið verið laust í merkingu 1. mgr. 2. gr. reglna nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum, enda yrði ekki séð að nokkur hafi átt lagalegt tilkall til þess að gegna því. Ljóst væri að undantekningar þær sem kæmu fram í 1.-3. tölul. 2. mgr. 2. gr. reglnanna ættu ekki við. Það var niðurstaða umboðsmanns að skylt hafi verið að auglýsa starf innkaupastjóra laust til umsóknar samkvæmt reglum nr. 464/1996. Því hafi verið óheimilt að ráða C í starfið án undangenginnar auglýsingar þar sem öllum þeim sem áhuga höfðu á að sækja um það var gefinn kostur á að leggja fram umsókn.

Umboðsmaður taldi að ekki yrði séð að fyrir lægju dómar sem skæru úr um hvaða áhrif annmarkar af því tagi sem að framan greinir gætu haft. Almennt séð yrði hins vegar að telja að ef vikið væri frá lagaskyldu um auglýsingu á lausum störfum væri um verulegan annmarka á ákvörðun að ræða. Af almennri dómaframkvæmd um hliðstæðar ákvarðanir og að teknu tilliti til hagsmuna þess sem ráðinn hefði verið í starf taldi umboðsmaður þó ekki unnt að fullyrða hvort slíkir annmarkar ættu að hafa þau áhrif að ráðning yrði felld úr gildi. Taldi umboðsmaður að það yrði að vera hlutverk dómstóla að skera úr um það.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til Fjórðungssjúkrahússins á X að sjúkrahúsið tæki framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem rakin væru í álitinu við ráðningu í opinber störf. Í ljósi þess að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið virtist hafa átt óbeint hlut að máli við tilfærslu C á milli starfa var álit umboðsmanns enn fremur sent ráðuneytinu með það í huga að þau sjónarmið sem þar kæmu fram gætu orðið til leiðbeiningar við slíka íhlutun ráðuneytisins í framtíðinni.