Opinberir starfsmenn. Auglýsing á lausum störfum. Breytingar á störfum og verksviði.

(Mál nr. 3878/2003)

Félag íslenskra flugumferðarstjóra kvartaði yfir því hvernig Flugmálastjórnin Keflavíkurflugvelli hagaði almennt auglýsingum á störfum flugumferðarstjóra hjá flugumferðarþjónustunni á Keflavíkurflugvelli. Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns ákvað flugmálastjórnin að taka þá framkvæmd sem kvörtunin beindist að til endurskoðunar í því augnamiði að færa hana til betra samræmis við kröfur 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og reglna nr. 464/1996, um auglýsingar á lausum störfum. Félag íslenskra flugumferðarstjóra óskaði þá eftir því að umboðsmaður fjallaði um það hvort 19. gr. laga nr. 70/1996 veitti heimild til að „víkjast undan ákvæðum 2. mgr. 7. gr. sömu laga“ eins og félagið áleit að flugmálastjórnin gengi út frá í svarbréfi sínu til umboðsmanns.Umboðsmaður ákvað að ljúka athugun sinni á kvörtuninni með bréfi, sem er dagsett 12. desember 2003, og vísaði þar einkum til boðaðrar endurskoðunar. Hann ákvað þó jafnframt að benda á afstöðu sína til fáeinna atriða er lutu að túlkun 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 með það í huga að unnt væri að taka tillit til þeirra við endurskoðunina.Umboðsmaður vék í fyrstu að því að svo virtist sem sérstök leyfi þyrfti til að starfa sem flugumferðarstjóri við einstakar flugstjórnardeildir. Tók hann fram að það veitti út af fyrir sig ekki heimild til að víkja frá 7. gr. laga nr. 70/1996 þó að áskilið væri að viðkomandi hefði tiltekna löggildingu svo hann gæti gegnt starfinu. Ef einungis þröngur hópur einstaklinga uppfyllti skilyrði til að sinna því kynni það á hinn bóginn að vera lögmæt ástæða fyrir því að setja sérreglur um það hvernig auglýsa skuli laus störf, sbr. 2. ml. 2. mgr. 7. gr. laganna.Umboðsmaður dró þá ályktun af 2. mgr. 7. gr. laga nr. 70/1996 og ákvæðum reglna nr. 464/1996 að ef ætlunin væri að ráða starfsmann í laust starf í þjónustu ríkisins væri skylt að gera það að undangenginni auglýsingu sem samrýmdist þeim kröfum sem kæmu fram í 3. gr. ofangreindra reglna nema að sérreglur hefðu verið settar um það, sbr. 2. ml. 2. mgr. 7. gr. laganna eða að þær undanþágur sem kæmu fram í 1. til 3. tölul. 2. mgr. 2. gr. reglnanna ættu við. Óumdeilt væri að þegar starf væri auglýst með þeim hætti sem tíðkast hafði hjá flugmálastjórninni, þ.e. með því að hengja upp auglýsingu á auglýsingatöflu á vinnustað og vekja athygli þeirra sem hefðu löggildingu til að gegna viðkomandi starfi á því með tölvupósti að það væri laust til umsóknar, teldist það ekki nægjanlega auglýst.Umboðsmaður lagði þó áherslu á að skylda ríkisstofnana að þessu leyti ætti aðeins við ef starf væri laust í merkingu 7. gr. laga nr. 70/1996. Taldi hann að það væri að ýmsu leyti komið undir afstöðu forstöðumanns og aðstæðum hvort tiltekið starf teldist laust. Vísaði hann meðal annars til 19. gr. laganna í því sambandi en þar segir að starfsmanni sé skylt að hlíta breytingum á störfum sínum og verksviði frá því er hann tók við starfi. Slíkar breytingar gætu annað hvort haft á sér yfirbragð íþyngjandi eða ívilnandi ráðstöfunar gagnvart starfsmanni. Ekki væri loku fyrir það skotið að forstöðumaður gæti t.d. hækkað starfsmann „í tign“ innan stjórnskipulags stofnunar á grundvelli 19. gr. laganna þannig að hann tæki við störfum sem gerðu ráð fyrir aukinni hlutdeild í stjórnun og meiri ábyrgð. Áleit umboðsmaður eðlilegt að skýra 7. gr. laganna í þessu ljósi þannig að þegar ákveðið væri að breyta verksviði starfsmanns með þessum hætti yrði viðkomandi starf ekki talið laust í merkingu 7. gr. laganna enda stæði heimild til slíkra breytinga samkvæmt 19. gr. laganna. Í bréfi sínu til Flugmálastjórnarinnar Keflavíkurflugvelli lagði umboðsmaður þó áherslu á að 19. gr. laganna virtist ekki veita flugvallarstjóra heimild til að breyta starfi annarra flugumferðarstjóra en þeirra sem þegar störfuðu hjá stofnuninni. Starf yrði því að telja laust í merkingu 7. gr. laganna og nauðsynlegt að auglýsa það opinberlega ef ætlunin væri að leita til annarra en starfsmanna stofnunarinnar með það fyrir augum að gefa þeim kost á því að sækja um það.

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 12. desember 2003.