Kvartað var yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála sem staðfesti ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta því viðkomandi hefði ekki mætt á boðaðan fund hjá stofnuninni. Ekki hefði verið gætt meðalhófs við meðferð málsins.
Með hliðsjón af skýringum viðkomandi á forföllum sínum frá fundinum og skyldu til að sinna boði Vinnumálastofnunar með skömmum fyrirvara voru ekki forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu nefndarinnar. Sama gilti m.t.t. meðalhófsreglu.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 20. desember 2024.
Vísað er til kvörtunar þinnar 1. desember sl. yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála 14. nóvember sl. í máli nr. 444/2024. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Vinnumálastofnunar 18. september sl. um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta á þeim grundvelli að þú hafir ekki mætt á boðaðan fund hjá stofnuninni. Í kvörtuninni kemur fram að þú teljir stofnunina ekki hafa gætt meðalhófs við meðferð málsins. Þá tekur þú fram að þú hafir mætt til fundar við stofnunina 20. ágúst sl. og tilkynnt forföll vegna fundarins 4. september sl. Þá ræð ég að kvörtunin beinist einnig að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur til þín frá 15. desember 2023. Í tilefni af kvörtuninni óskaði starfsmaður minn með tölvupósti 3. desember sl. eftir því að þú sendir umboðsmanni gögn sem varpað gætu ljósi á kvörtunina. Með tölvupósti 3. desember sl. bárust gögn frá þér.
Í III. kafla laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, er mælt fyrir um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í 3. mgr. 13. gr. laganna segir að Vinnumálastofnun sé heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Sérstaklega er tekið fram að hinn tryggði skuli vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara. Í athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 134/2009 og færði 3. mgr. 13. gr. í lög nr. 54/2006 kemur m.a. fram að gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti boðað atvinnuleitanda með allt að sólarhringsfyrirvara á þá skrifstofu sína sem næst er lögheimili viðkomandi enda þyki þetta mikilvægur liður í eftirliti stofnunarinnar með því að þeir sem fá greiddar atvinnuleysisbætur séu í virkri atvinnuleit. Þá er í 13. gr. laga nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, mælt fyrir um skyldu atvinnuleitanda til að fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Í 14. gr. laganna er fjallað um eftirlit Vinnumálastofnunar með þátttöku atvinnuleitanda í vinnumarkaðsaðgerðum m.a. með því að boða þá reglulega til viðtals eftir þörfum hvers og eins.
Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er mælt fyrir um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Þá segir í 1. mgr. ákvæðisins að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku stofnunarinnar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Þá segir að hið sama gildi þegar hinn tryggði mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. Í 4. mgr. greinarinnar segir að hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili samkvæmt 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. eigi sér stað skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. laganna.
Af kvörtuninni og gögnum málsins virðist óumdeilt að Vinnumálastofnun boðaði þig á upplýsingafund hjá stofnuninni 3. september sl. sem fram átti að fara á þjónustuskrifstofu stofnunarinnar í Reykjavík 4. september sl. Þá virðist einnig ágreiningslaust að þú mættir ekki til þess fundar en munt hafa boðað forföll með tölvupósti 3. september sl. án þess að veita nánari skýringar. Í kjölfar þess að þú mættir ekki var þér 9. september sl. veitt færi á að koma á framfæri skýringum á forföllum þínum. Í skýringum þínum til stofnunarinnar sem ég ræð af gögnum málsins að þú hafir sent með tölvupósti 9. september sl. er vísað til þess að þú hafir mætt í klukkustundar langt viðtal við stofnunina í ágúst sl. Þá sért þú einstæð móðir með tvö börn og sex klukkustunda leikskólavistun og því hafir þú ekki komist. Ekki verður séð að frekari skýringar hafi verið veittar á forföllum þínum eða gerð nánari grein fyrir því hvers vegna þú gast ekki mætt umrætt sinn. Með hliðsjón af framagreindu og þess sem að framan er rakið um skyldu hins tryggða til að sinna boði Vinnumálastofnunar með skömmum fyrirvara, sbr. 3. mgr. 13. gr. og 1. mgr. 58. gr. laganna, tel ég mig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að staðfesta ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur til þín þar sem þú mættir ekki til boðaðs fundar. Í því sambandi hef ég m.a. í huga að þér var veitt færi á að færa fram gildar skýringar á forföllum þínum sem þú ekki gerðir.
Í kvörtuninni er vísað til þess að stjórnvöld hafi ekki gætt meðalhófs við meðferð málsins. Í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að stjórnvald skuli því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til. Eins og rakið var að framan er í 58. gr. laga nr. 54/2006 mælt fyrir um þau viðurlög sem eiga við þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerð er hafnað. Er þar sérstaklega tekið fram í 4. mgr. að stöðva eigi greiðslur atvinnuleysisbóta í þeim tilvikum þegar hinn tryggði hefur fengið greiddar bætur í a.m.k. 24 mánuði. Ljóst er að Vinnumálastofnun, og eftir atvikum úrskurðarnefndinni, ber þannig að mæla fyrir um slík viðurlög séu framangreind skilyrði ákvæðisins uppfyllt. Að þessu virtu tel ég ekki tilefni til að gera athugasemdir við úrskurð úrskurðarnefndarinnar með hliðsjón af meðalhófsreglu.
Í kvörtuninni er einnig vísað til ákvörðunar Vinnumálastofnunar 15. desember 2023. um að stöðva greiðslur til þín. Af því tilefni skal tekið fram í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er kveðið á um að ekki sé unnt að kvarta til umboðsmanns, ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Byggir þetta ákvæði á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli sjálf fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en farið er til aðila utan stjórnkerfis þeirra með kvartanir. Engin gögn fylgdu kvörtun þinni sem varpa ljósi á þessa ákvörðun. Ég fæ þannig ekki ráðið að þú hafir borið ákvörðunina undir úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006. Af þeim sökum eru ekki uppfyllt lagaskilyrði til að fjalla frekar um þennan þátt kvörtunarinnar að svo stöddu. Hafir þú borið ákvörðunina undir úrskurðarnefndina getur þú leitað til mín á ný með kvörtun vegna hans.
Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið lýk ég athugun minni á kvörtun yðar, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.