Húsnæðismál.

(Mál nr. 13061/2024)

Kvartað var yfir ákvæðum reglugerðar um hlutdeildarlán og margvíslegar athugasemdir gerðar við hana.

Þar sem kvörtunin beindist ekki að tiltekinni ákvörðun eða athöfn stjórnvalds sem snerti hagsmuni viðkomandi umfram aðra voru ekki skilyrði til að taka hana til meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 22. janúar 2024.

  

  

Vísað er til kvörtunar þinnar 22. desember sl. þar sem þú kemur á framfæri margháttuðum athugasemdum við ákvæði reglugerðar nr. 1084/2020, um hlutdeildarlán. Lúta athugasemdirnar meðal annars að kröfum reglugerðarinnar um eðli þess húsnæðis, sem menn geta fengið hlutdeildarlán til að festa kaup á, og verð þess. Eru í kvörtuninni einnig settar fram sjö tölusettar spurningar um hlutdeildarlán.

Í tilefni af kvörtuninni hafði starfsmaður umboðsmanns samband við þig símleiðis 13. janúar sl. í kjölfar þess að þú sendir tölvubréf um að þú vildir bæta atriðum við erindi þitt. Barst með tölvubréfi frá þér 15. sama mánaðar afrit af samskiptum þínum við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Lauk þeim af þinni hálfu 7. nóvember sl. þegar þú upplýstir stofnunina um að þú hefðir hætt við að kanna frekar kaup á tiltekinni íbúð, sem þú hafðir sent stofnuninni fyrirspurn um viðvíkjandi möguleika á hlutdeildarláni.

Um störf umboðsmanns Alþingis gilda samnefnd lög nr. 85/1997. Samkvæmt 2. gr. laganna er hlutverk hans að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt, sem nánar greinir í lögunum, og að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laganna getur hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu stjórnvalds kvartað af því tilefni til umboðsmanns Alþingis.

Það er ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að láta fólki í té lögfræðilegar álitsgerðir eða svara almennum spurningum um tiltekin málefni eða réttarsvið heldur að fjalla um kvartanir yfir því að stjórnvöld hafi ekki farið að lögum eða fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum með ákvörðunum sínum eða athöfnum. Þá verður kvörtun að lúta að tilteknum athöfnum eða ákvörðunum stjórn­valds sem beinast að þeim sem leggur fram kvörtun eða varða bein­línis hagsmuni hans eða réttindi.

Enda þótt þú hafir átt í tölvupóstsamskiptum við starfsmann Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar verður ekki séð að í þeim hafi verið fólgið annað en fyrirspurnir af þinni hálfu og leiðbeiningar stofnunarinnar. Verður þannig til að mynda ekki séð að þú hafir sótt um hlutdeildarlán og slík umsókn fengið afgreiðslu stjórnvalda á grundvelli þeirra reglugerðarákvæða sem athugasemdir þínar beinast að. Eru af þessum sökum ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtunin verði tekin til frekari meðferðar af hálfu umboðsmanns. Ég bendi þér hins vegar á að þú getur komið þeim efnislegu athugasemdum sem þú hefur við ákvæði reglugerðar nr. 1084/2020 á framfæri við félags- og húsnæðismálaráðherra.

Með vísan til framangreinds læt ég máli þessu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.