Kvartað var yfir meðferð Orkusjóðs á umsókn um rafbílastyrk og samskiptum við starfsfólk stofnunarinnar.
Í kjölfar erindis umboðsmanns til Loftslags- og orkusjóðs og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins lýsti ráðuneytið þeirri afstöðu sinni að rafmagnsbifreiðar, sem nýskráðar voru eftir 1. janúar 2024, væru styrkhæfar hvað sem liði niðurfellingu virðisaukaskatts. Jafnframt að það myndi fylgja því eftir að niðurstaða fengist í málið. Umboðsmaður lauk því meðferð málsins að þessum svörum fengnum.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 29. janúar 2024.
Vísað er til kvörtunar þinnar 9. ágúst sl. yfir meðferð Orkusjóðs á umsókn þinni um rafbílastyrk. Lutu athugasemdirnar að tafsamri meðferð umsóknarinnar en einnig að samskiptum þínum við starfsmenn Orkustofnunar, sem nú er Umhverfis- og orkustofnun, afstöðu þeirra til umsóknarinnar og viðmóti þeirra gagnvart þér.
Í tilefni af kvörtun þinni voru formanni stjórnar Loftslags- og orkusjóðs og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu rituð bréf 2. september sl. þar sem tiltekinna upplýsinga var óskað í tilefni af kvörtun þinni. Svar ráðuneytisins barst 23. september sl. og svar Orkustofnunar fyrir hönd Loftslags- og orkusjóðs 24. sama mánaðar. Þau svör gáfu tilefni til að rita umhverfis- og orku- og loftslagsráðherra bréf 2. desember sl. og barst svar við því 19. desember sl. Þessi bréfaskipti fylgja hjálögð.
Í bréfinu kemur m.a. fram sú afstaða ráðuneytisins að rafmagnsbifreiðar, sem nýskráðar voru eftir 1. janúar 2024, séu styrkhæfar hvað sem líði niðurfellingu virðisaukaskatts. Jafnframt kemur og fram að ráðuneytið muni fylgja því eftir að niðurstaða fáist í mál þitt sem allra fyrst.
Kvörtun þín laut einkum að töfum og afstöðu Loftslags- og orkusjóðs til umsóknar þinnar. Athugun umboðsmanns á málinu hefur því einkum miðað að því að þú fáir úrlausn á erindi þínu. Fyrir liggur að ráðuneytið hefur lýst afstöðu sinni til málsins og komið henni á framfæri með fyrirmælum um að afgreiða mál þitt. Þá hyggst ráðuneytið sömuleiðis ganga á eftir skjótri afgreiðslu umsóknar þinnar. Í ljósi þessa tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtuninni að svo stöddu. Lýk ég því meðferð minni á henni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Verði aftur á móti frekari tafir á meðferð málsins getur þú leitað til mín á ný teljir þú ástæðu til. Að endingu tek ég fram að Loftslags- og orkusjóði og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu voru rituð bréf í tilefni þess að meðferð kvörtunar þinnar er lokið og eru þau hjálögð í ljósriti.
Hinn 26. september sl. var undirrituð kjörin umboðsmaður Alþingis og tók við embætti 31. október sl. Hef ég því farið með mál þetta frá þeim tíma.
Bréf umboðsmanns til loftslags- og orkusjóðs 29. janúar 2025.
Það tilkynnist hér með að ég hef lokið máli A með bréfi því sem hér fylgir í ljósriti. Í ljósi þess sem fyrir liggur um meðferð málsins og að því sé ekki lokið er þess þó óskað að umboðsmanni verði gerð grein fyrir afgreiðslu umsóknar A og niðurstöðu hennar þegar hún liggur fyrir. Liggi niðurstaðan ekki fyrir 27. febrúar nk. er þess jafnframt óskað að umboðsmanni verði tilkynnt um það, veittar á því skýringar og upplýst hvenær fyrirhugað sé að ljúka málinu.
Ég tel þó rétt að benda á að við meðferð málsins hnaut ég um samskipti verkefnisstjóra þáverandi Orkusjóðs og A, einkum tölvupóst frá 4. mars 2024 til A þar sem verkefnastjórinn virðist láta í veðri vaka að með umsókn sinni kunni A að hafa framið refsivert brot.
Í svörum Orkustofnunar fyrir hönd Orku- og loftslagssjóðs 24. september sl. kom fram að stjórn sjóðsins hefði ekki verið upplýst um umræddan tölvupóst en hún verði upplýst þegar niðurstaða liggur fyrir. Af þessu tilefni tel ég rétt að benda á að endanleg afgreiðsla styrkumsóknarinnar getur ekki verið forsenda þess að tekið verði til skoðunar hvort umrædd samskipti hafi samrýmst hlutverki og skyldum viðkomandi starfsmanns samkvæmt lögum nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins jafnvel þótt tilefni sé til þess að stjórn sjóðsins taki umrædd tölvupóstsamskipti til athugunar í samráði við Umhverfis- og orkustofnun.
Bréf umboðsmanns til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins 29. janúar 2025.
Það tilkynnist hér með að ég hef lokið máli A með bréfi því sem hér fylgir í ljósriti. Í ljósi þess sem fram hefur komið í bréfaskiptum við ráðuneytið tek ég þó fram að ég tel að ráðuneytið hefði getað í ljósi þeirra aðstæðna sem voru uppi í málinu beitt stjórnunarheimildum sínum gagnvart Orkustofnun með ákveðnari hætti. Ég bendi ráðuneytinu á að hafa það í huga við meðferð sambærilegra mála.
Með vísan til þess, sem fram kom í bréfi ráðuneytisins 19. desember sl., er þess jafnframt óskað að umboðsmanni verði gerð grein fyrir því hvort skoðun ráðuneytisins á málsmeðferð og framkvæmd styrkveitinga, þ. á m. viðvíkjandi birtingu reglna og rafrænni meðferð umsókna, verði því tilefni til viðbragða og, ef svo er, hverra. Þess er óskað að svör berist ekki síðar en 30. apríl nk.