Skattar og gjöld. Einkaaðili. Utan starfssviðs.

(Mál nr. 78/2025)

Kvartað var yfir gjaldtöku RARIK ohf. vegna uppsetningar á spennistöð í tengslum við uppbyggingu sumarhúss.  

Þar sem RARIK er opinbert hlutafélag og starfar því á grundvelli einkaréttar voru ekki skilyrði til að taka kvörtunina til frekari meðferðar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. febrúar 2025.

  

  

Vísað er til kvörtunar þinnar 16. febrúar sl. yfir gjaldtöku RARIK ohf. vegna uppsetningar á spennistöð við [...] að fjárhæð 540.620 kr. í tengslum við uppbyggingu sumarhúss á lóðinni. Eru gerðar athugasemdir við að þú þurfir einn að standa straum af gjaldinu óháð því hvort aðrir notendur tengist inn á kerfið síðar, líkt og gert sé ráð fyrir í gjaldskrá RARIK. Kemur fram í kvörtuninni að þú teljir þetta stangast á við jafnræðisreglu íslensks réttar.

Í tilefni af kvörtuninni skal tekið fram að samkvæmt 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, nær starfssvið umboðsmanns einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að með lögum nr. 25/2006, um stofnun hlutafélags um Rafmagnsveitur ríkisins, var þáverandi iðnaðarráðherra falið að stofna hlutafélag um rekstur Rafmagnsveitna ríkisins og leggja til þess allar eignir þeirra og skuldir, réttindi og skuldbindingar. Í 4. gr. laganna segir að tilgangur hlutafélagsins skuli vera að framleiða, dreifa og eiga viðskipti með raforku og varmaorku í samræmi við ákvæði raforkulaga nr. 65/2003 og orkulaga nr. 58/1967, vegna hitaveitna, hvort heldur er í heildsölu eða smásölu, ásamt hverri þeirri starfsemi annarri sem nýtt getur rannsóknir, þekkingu og búnað félagsins. Þá kemur enn fremur fram í 2. gr. laga nr. 25/2006 að ákvæði laga um hlutafélög gildi um félagið ef ekki er kveðið á um annað í fyrrnefndu lögunum.

Líkt og að framan greinir er RARIK opinbert hlutafélag sem m.a. er starfrækt á grundvelli laga nr. 2/1995, um hlutafélög. Félagið starfar því á grundvelli einkaréttar þótt það sé í eigu ríkisins. Af þeim sökum og þar sem annað á ekki við um kvörtunarefnið bresta lagaskilyrði til þess að kvörtunin verði tekin til frekari meðferðar.

Með vísan til framangreinds læt ég meðferð minni á málinu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.