Yfirstjórnunar- og eftirlitsheimildir. Eftirlit ráðherra með undirstofnun. Ekki aðild.

(Mál nr. 178/2025)

Samtökin A kvörtuðu yfir eftirliti dómsmálaráðuneytisins og innviðaráðuneytisins með ársreikningum Landsréttar, ríkislögreglustjóra og Þjóðskrá Íslands.

Með hliðsjón af efni kvörtunarinnar varð ekki ráðið að hún lyti að eintaklingsbundnum hagsmunum eða réttindum samtakanna sjálfra eða félagsmanna þess. Taldi umboðsmaður því ekki lagaskilyrði fyrir því að taka erindi samtakanna til meðferðar á grundvelli kvörtunar.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. apríl 2025.

  

  

Vísað er til kvörtunar A 14. apríl sl. sem beinist að dómsmálaráðuneytinu og innviðaráðuneytinu og lýtur að eftirliti ráðuneytanna með ársreikningum Landsréttar, ríkislögreglustjóra og Þjóðskrár Íslands. Í kvörtuninni eru gerðar nánar greindar athugasemdir við frágang ársreikninganna sem A telja að hafi átt að kalla á viðbrögð af hálfu ráðuneytanna.

Fjallað er um hlutverk umboðsmanns í 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þar kemur fram að hlutverk hennar sé að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Hún skal gæta þess að jafnræði sé í heiðri haft í stjórnsýslunni og að hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög, vandaða stjórnsýsluhætti og nánar greindar siðareglur.

Í lögum nr. 85/1997 er gengið út frá því að meginviðfangsefni umboðsmanns sé að taka við kvörtunum frá borgurunum og láta þeim í té álit um það hvort stjórnvöld hafi leyst með réttum hætti úr máli þeirra. Þannig er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af aðilum sem heyra undir eftirlit umboðsmanns Alþingis geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns.

Í athugasemdum við 4. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 85/1997 kemur meðal annars fram að allir einstaklingar geti kvartað til umboðsmanns og sama gildi um félög. Því næst segir að aðrir geti ekki borið fram kvörtun en þeir sem haldi því fram að þeir hafi sjálfir orðið fyrir rangsleitni af hálfu stjórnvalda. Kvörtun af hálfu aðila sem ekki sýni fram á að brot geti snert beinlínis hagsmuni hans eða réttindi geta þó vakið athygli umboðsmanns á vandamáli. Sé umboðsmanni þá heimilt að taka það mál upp að eigin frumkvæði, sbr. 5. gr. frumvarpsins (Alþt. 1996-1997, A-deild, bls. 2329-2330). Af þessu leiðir að starfsemi og málsmeðferð stjórnvalds verður að öllu jöfnu ekki tekin til almennrar athugunar á grundvelli kvörtunar heldur verður kvörtun að lúta að tilteknum athöfnum, athafnaleysi eða ákvörðunum stjórnvalds sem beinast að þeim sem leggur fram kvörtun eða varða beinlínis hagsmuni hans eða réttindi umfram aðra. Þegar kvörtun berst umboðsmanni Alþingis frá félagi sem byggist á því hlutverki þess að gæta hagsmuna félagsmanna sinna er hverju sinni metið hvort fullnægt sé skilyrðum til að taka kvörtunina til meðferðar.

Ég legg þann skilning í kvörtunina að hún sé lögð fram vegna þeirra málefna sem A beita sér fyrir. Með hliðsjón af efni kvörtunarinnar verður þó ekki ráðið að hún lúti að einstaklingsbundnum hagsmunum eða réttindum A sjálfra eða félagsmanna þess. Ég tel því ekki lagaskilyrði fyrir því að taka erindi A til meðferðar á grundvelli kvörtunar.

Ég tek þó fram að ég lít svo á að með kvörtuninni hafi jafnframt verið komið á framfæri ábendingu um mál sem A telja tilefni fyrir umboðsmann að taka til meðferðar að eigin frumkvæði. Þessari ábendingu, eins og öðrum ábendingum sem umboðsmanni Alþingis berast, verður haldið til haga. Þegar umboðsmanni berast erindi sem fela í sér ábendingu eða eru að öðru leyti almenns eðlis þá er verklagið þannig að erindið er yfirfarið með tilliti til þess hvort tilefni sé til að taka atriði sem koma fram í því til athugunar á grundvelli frumkvæðisheimildarinnar. Við mat á því er meðal annars litið til starfssviðs og áherslna umboðsmanns, hagsmuna sem tengjast málefninu sem um ræðir og málastöðu og nýtingar mannafla hjá embættinu. Verði málefnið tekið til athugunar er almennt ekki upplýst um það sérstaklega heldur er tilkynnt um athugunina á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is.

Að lokum skal þess getið að Ríkisendurskoðun er endurskoðandi ríkisreiknings og ársreikninga ríkisaðila, sbr. 59. gr. laga nr. 123/2015, um opinber fjármál. A kann því jafnframt að vera fært að beina ábendingum sínum til Ríkisendurskoðunar, telji þau tilefni til þess.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtunina, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.