A kvartaði yfir ætluðum lögbrotum í starfsemi B ehf.
Umboðsmaður vísaði til þess að B ehf. væri einkahlutafélag og teldist því einkaréttarlegur aðili. Það félli því utan starfssviðs embættisins að fjalla um þá starfsemi félagsins sem kvörtunin laut að.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. maí 2025.
Vísað er til kvörtunar þinnar 24. apríl sl. sem beinist að X ehf. og lýtur að ætluðum lögbrotum í starfsemi félagsins, þar á meðal vanrækslu við að tryggja öryggi á vinnustað. Í kvörtuninni kemur fram að hún sé lögð fram í samræmi við réttindi þín og skyldur samkvæmt lögum nr. 40/2020, um vernd uppljóstrara, og að þú teljir þig hafa verið látinn gjalda þess með uppsögn að hafa miðlað þessum upplýsingum innan félagsins.
Í tilefni af kvörtuninni skal tekið fram að samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er það hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 3. gr. sömu laga er starfssvið umboðsmanns nánar afmarkað og nær það einvörðungu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem fengið hafa opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða falla undir 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.
Um vernd þeirra sem greina frá brotum er fjallað í 18. gr. laga nr. 85/1997 en 1. mgr. hennar segir að þrátt fyrir fyrirmæli laga, siðareglna eða samninga um þagnar- eða trúnaðarskyldu sé þeim sem búi yfir upplýsingum eða gögnum um brot á lögum, vönduðum stjórnsýsluháttum eða öðrum reglum og starfsháttum, í starfsemi þeirra sem falli undir starfssvið umboðsmanns, heimilt í þágu þeirra almannahagsmuna sem umboðsmaður hafi eftirlit með að greina honum frá slíku og afhenda honum gögn þar að lútandi.
Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að X ehf. er einkahlutafélag sem starfar á grundvelli laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, og telst því einkaréttarlegur aðili. Sem slíkur fellur hann því að jafnaði utan starfssviðs umboðsmanns í samræmi við ofangreind ákvæði laga nr. 85/1997. Þá felur sú háttsemi sem kvörtunin beinist að ekki í sér stjórnsýslu í skilningi laganna enda er ekki í henni fólgin beiting opinbers valds sem félaginu hefur verið fengið með lögum eða ákvörtunartaka á þeim grundvelli. Það fellur því utan starfssviðs umboðsmanns að fjalla um þá starfsemi félagsins sem kvörtunin lýtur að.
Í ljósi þess sem fram kemur í kvörtuninni vek ég þó athygli þína á að í 1. mgr. 88. gr. laga nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, kemur fram að þrátt fyrir fyrirmæli laga, siðareglna eða samninga um þagnar- eða trúnaðarskyldu sé þeim sem búi yfir upplýsingum eða gögnum um brot á lögum eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi þeirra sem falli undir starfssvið Vinnueftirlits ríkisins heimilt í þágu þeirra almannahagsmuna sem það hefur eftirlit með að greina frá slíku og afhenda því gögn þar að lútandi. Samkvæmt 2. mgr. 88. gr. skal sá sem óskar eftir að greina frá eða afhenda gögn samkvæmt 1. mgr. taka fram ef hann óskar eftir að njóta verndar samkvæmt þessari grein. Í samræmi við framangreint kann þér að vera fært að koma hluta af athugasemdum þínum á framfæri við Vinnueftirlitið.
Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 er umfjöllun minni um kvörtunina lokið.