Fangelsismál. Heimsóknir til fanga. Afplánun refsingar. Kæruleið ekki tæmd.

(Mál nr. 177/2025)

Kvartað var yfir takmörkunum á heimsóknum kærustu A í fangelsið Hólmsheiði og að barnsmóðir A hefði verið fjarlægð af heimsóknarlista án málefnalegs rökstuðnings.

Kvartandi tiltók að málið væri til umfjöllunar í dómsmálaráðuneytinu. Af þeim sökum hafði kæruleið ekki verið tæmd og því ekki skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um málið að svo stöddu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 27. maí 2025.

  

  

Vísað er til kvörtunar þinnar 11. apríl sl. vegna takmarkana á heimsóknum kærustu þinnar í fangelsið Hólmsheiði sem þá hafði staðið í um tíu mánuði. Í kvörtuninni kemur fram að barnsmóðir þín hefði jafnframt verið fjarlægð af heimsóknarlista þínum en að þinni sögn fylgdi hvorugri takmörkuninni málefnalegur rökstuðningur. Í símtali starfsmanns míns við þig 28. apríl sl. kom fram að þú hefðir nýlega verið fluttur í fangelsið Sogni en umræddar takmarkanir á heimsóknum frá annarri konunni væru enn við lýði. Þú hefðir þegar kært ákvörðunina til dómsmálaráðuneytis þar sem málið væri enn til meðferðar.

Um heimsóknir til fanga er fjallað í 45. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsinga. Þar segir meðal annars að fangi sem afplánar í lokuðu fangelsi geti fengið heimsóknir frá fjölskyldu og vinum ef aðstæður í fangelsi leyfa og slíkt telst gagnlegt sem þáttur í refsifullnustu hans, sbr. 1. mgr. greinarinnar. Það sama á við um fanga sem afplána í opnu fangelsi, sbr. 2. mgr. greinarinnar. Forstöðumaður getur ákveðið að banna tilteknum mönnum að heimsækja fanga ef nauðsynlegt þykir til að viðhalda ró, góðri reglu og öryggi í fangelsi og til að koma í veg fyrir refsiverðan verknað eða ef ástæða er til að ætla að heimsóknin verði misnotuð að öðru leyti. Slíka ákvörðun skal rökstyðja skriflega, sbr. 1. mgr. 46. gr. laganna. Ákvarðanir um takmarkanir á heimsóknum eru kæranlegar til dómsmálaráðuneytis, sbr. 95. gr. laganna.

Ástæða þess að ég bendi á þessar reglur er sú að ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald, sem í þínu tilviki er dómsmálaráðuneytið, hefur fjallað um málið, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Er þannig gert ráð fyrir að stjórnvöld fái tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í störfum sínum sem hugsanlega er ekki í samræmi við lög áður en leitað er til umboðsmanns. Í samræmi við þetta og þar sem dómsmálaráðuneytið hefur málið til meðferðar get ég ekki tekið kvörtunina til frekari athugunar enn sem komið er. Þegar niðurstaða dómsmálaráðuneytisins liggur fyrir og ef þú ert ósáttur við hana geturðu kvartað til umboðsmanns á nýjan leik.   

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýk ég umfjöllun minni um kvörtun þína, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.