Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu erindis sem beint hafði verið til atvinnuvegaráðuneytisins rúmum einum og hálfum mánuði fyrr.
Umboðsmaður taldi að ekki hefði enn orðið slíkur dráttur á svörum að tilefni stæði til að taka kvörtunina til frekari athugunar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 18. júlí 2025.
Vísað er til kvörtunar þinnar 9. júlí sl. sem lýtur að drætti á svörum atvinnuvegaráðuneytisins við beiðni þinni frá 26. maí sl. um að gerð verði úttekt á jörðinni [...] í [...] samkvæmt ákvæðum ábúðarlaga nr. 80/2004. Af fylgigögnum með kvörtuninni verður ráðið að þú hafir ítrekað erindið tvívegis, fyrst símleiðis 23. júní sl. og síðan skriflega með tölvupósti 26. júní sl., án þess að viðbrögð hafi orðið af hálfu ráðuneytisins.
Í tilefni af framangreindu tel ég rétt að taka fram að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa, sbr. eftir atvikum meginreglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður m.a. til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkuð svigrúm í þessu efni. Ég tel að ekki hafi enn orðið slíkur dráttur á að erindi þínu til ráðuneytisins frá 26. maí sl. hafi verið svarað að tilefni sé til að ég taki kvörtun þína til frekari athugunar.
Með hliðsjón af framangreindu læt ég umfjöllun minni vegna kvörtunar þinnar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Ég tek þó fram að þú getur leitað til mín á nýjan leik verði frekari tafir á því að ráðuneytið bregðist við erindi þínu.