Ökuréttur. Kæruleið ekki tæmd.

(Mál nr. 284/2025)

Kvartað var yfir því að við útgáfu aukinna ökuréttinda af hálfu sýslumanns hefði gildistími áður gildandi ökuréttinda styst.

Með vísan til þess að ákvörðun sýslumanns virtist ekki hafa verið borin undir innviðaráðuneytið taldi umboðsmaður ekki uppfyllt skilyrði til að fjallað yrði um kvörtunina að svo stöddu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 11. júlí 2025.

  

  

Vísað er til kvörtunar þinnar 2. júlí sl. yfir því að sýslumaðurinn á Suðurlandi hafi takmarkað gildistíma ökuréttinda þinna í B-flokki þegar hann veitti þér aukin réttindi í BE-flokki. Þannig hafi gildistími ökuréttinda þinna í B-flokki orðið fimmtán ár frá útgáfu nýs ökuskírteinis en hefði, að öllu óbreyttu, verið 24 ár frá sama tímamarki talið.

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds og það hefur ekki fellt úrskurð sinn í málinu. Ástæða þess að ákvæði þetta er rakið er sú að ekki verður séð að þú hafir borið ákvörðun sýslumannsins á Suðurlandi undir innviðaráðherra á grundvelli 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sá ráðherra fer auk annars með samgöngur á láði, sbr. 2. tölulið 7. gr. forsetaúrskurðar nr. 5/2025, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Með vísan til þess verður stjórnvaldsákvörðunum teknum á grundvelli umferðarlaga nr. 77/2019 jafnan skotið til hans. Ég tel rétt að vekja athygli þína á því að í bréfi umboðsmanns Alþingis í máli nr. 12524/2023, sem aðgengilegt er á vefsíðu umboðsmanns, www.umbodsmadur.is, er fjallað um sams konar álitaefni og í kvörtun þinni. Í því máli lá þó fyrir úrskurður innviðaráðuneytisins.

Með vísan til framangreinds eru að svo stöddu ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun þín verði tekin til meðferðar og lýk ég meðferð hennar af þeim sökum, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 . Ef þú freistar þess að leita til innviðaráðuneytisins með stjórnsýslukæru og ert ósáttur að fenginni niðurstöðu þess, getur þú leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.