Kvartað var yfir ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsóknum um veitingu ríkisborgararéttar fyrir börn.
Þar sem kæru vegna málsins hafði verið beint til dómsmálaráðuneytisins taldi umboðsmaður sér ekki fært að taka kvörtunina til nánari athugunar að svo stöddu.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. júlí 2025.
Vísað er til kvörtunar þinnar og B 17. júlí sl. sem beinist að Útlendingastofnun og lýtur að synjun stofnunarinnar 16. júlí sl. á umsókn um íslenskan ríkisborgararétt f.h. barna ykkar, C, D og E. Þar sem A hefur lagt fram sérstaka kvörtun til umboðsmanns vegna síns máls verður ekki fjallað nánar um það hér.
Í tölvupóstsamskiptum þínum við starfsmann embættis umboðsmanns kemur fram að fyrrgreindar ákvarðanir Útlendingastofnunar hafi verið kærðar til dómsmálaráðuneytisins, sem staðfesti móttöku kærunnar 18. júlí sl. Ástæða þess að ég nefni þetta er að samkvæmt 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu, þ.e. í þínu tilviki dómsmálaráðuneytið. Þetta ákvæði byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra, eins og umboðsmanns Alþingis, með kvartanir. Umboðsmaður fjallar því almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka afstöðu til þeirra eða á meðan það er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum. Í samræmi við þetta, og með vísan til þess að kæru vegna málsins hefur verið beint til dómsmálaráðuneytisins, er mér ekki fært að taka kvörtunina til nánari athugunar að svo stöddu.
Að framangreindu virtu lýk ég umfjöllun minni um kvörtunina, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þú ert enn ósáttur að fenginni niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins getur þú leitað til mín á ný með kvörtun þar að lútandi. Skal hún þá berast innan árs frá því að niðurstaða ráðuneytisins liggur fyrir, sbr. 2. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997.