A kvartaði yfir töfum á afgreiðslu dómsmálaráðuneytisins á stjórnsýslukæru í tilefni synjunar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á umsókn um leyfi til innflutnings vopna. Þá var kvartað yfir því að fyrirspurnum um framgang málsins hefði ekki verið svarað.
Í svari ráðuneytisins við fyrirspurn umboðsmanns var upplýst að kveðinn hefði verið upp úrskurður í málinu. Þá var tekið fram að fyrirspurnum A hefði ekki verið svarað en betur yrði gætt að því eftirleiðis. Þar sem málið hafði verið til lykta leitt og skýringar fengnar taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari athugunar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 5. september 2025.
Vísað er til kvörtunar þinnar 28. júlí sl. fyrir hönd A ehf. yfir því að dómsmálaráðuneytið hefði ekki enn afgreitt stjórnsýslukæru í tilefni synjunar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðin á umsókn um innflutning á vopnum. Þá laut kvörtunin að því að fyrirspurnum þínum um hvað liði afgreiðslu málsins hefði ekki verið svarað.
Í tilefni af kvörtun þinni var dómsmálaráðuneytinu ritað bréf 21. ágúst sl. þar sem þess var óskað að upplýst yrði hvort erindi þitt um hvenær niðurstöðu í málinu væri að vænta hefði borist og, ef svo væri, hvort því hefði verið svarað. Hefði því ekki verið svarað, var óskað skýringa á því. Þá var þess óskað að upplýst yrði hvað liði meðferð og afgreiðslu stjórnsýslumálsins. Svar dómsmálaráðuneytisins, sem fylgir bréfi þessu í ljósriti, barst 21. ágúst sl. Í því kemur fram að úrskurður í málinu hafi verið kveðinn upp 16. desember 2024 og sendur á heimilisfang, sem ráðuneytið hafði áður notað í samskiptum við þig, en ekki borist ráðuneytinu endursendur. Með svarbréfi ráðuneytisins barst eintak af úrskurðinum og sendist ljósrit þess meðfylgjandi bréfi þessu. Um svör við erindum þínum segir að þeim hafi fyrir mistök ekki verið svarað. Þá segir að ráðuneytið muni gæta betur að því í framtíðinni.
Þar sem kvörtun þín lýtur að töfum við meðferð stjórnsýslumáls og nú hefur verið kveðinn upp úrskurður í því tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Af sömu ástæðu og með vísan til svara dómsmálaráðuneytisins til mín tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna þess hluta kvörtunarinnar er lýtur að því að fyrirspurnum um framgang umrædds stjórnsýslumáls hafi ekki verið svarað. Lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.