Útlendingar. Dvalarleyfi. Tafir á afgreiðslu. Leiðrétting.

(Mál nr. 4/2025)

Kvartað var yfir töfum á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn um dvalarleyfi.  

Í kjölfar eftirgrennslan umboðmanns greindi Útlendingastofnun frá því að dvalarleyfi hefði verið veitt. Mistök hefðu verið gerð við meðferð málsins og skerpt yrði á verklagi. Ekki var því ástæða til að aðhafast frekar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. mars 2025.

  

   

Vísað er til kvörtunar þinnar 2. janúar síðastliðinn fyrir hönd A yfir töfum á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn hennar um dvalarleyfi.

Í tilefni af kvörtuninni var Útlendingastofnun ritað bréf 27. janúar síðastliðinn þar sem þess var óskað að stofnunin veitti umboðsmanni upplýsingar um hvað liði meðferð og afgreiðslu máls A. Svarbréf Útlendingastofnunar barst 30. sama mánaðar en það varð tilefni þess að Útlendingastofnun var ritað annað bréf 5. mars sl. Í því var þess óskað að stofnunin veitti tilgreindar upplýsingar og skýringar sem lutu að því að svo virtist sem A hefði fengið gefið út dvalarleyfi sem síðan hefði verið afturkallað. Með svarbréfi stofnunarinnar 6. sama mánaðar, sem fylgir hjálagt í ljósriti, upplýsti stofnunin umboðsmann um að A hefði verið veitt dvalarleyfi hinn 3. febrúar sl. með gildistíma til 2. febrúar 2026. Í bréfinu kom og fram að mistök hefðu verið gerð við meðferð málsins og að skerpt yrði á verklagi stofnunarinnar í því augnamiði að komi í veg fyrir að slíkt endurtæki sig.

Þar sem kvörtun þín lýtur að töfum og í ljósi þess að Útlendingastofnun hefur veitt A dvalarleyfi tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Ég árétta þó mikilvægi þess að málsmeðferð Útlendingastofnunar sé í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ljósi afstöðu stofnunarinnar í svarbréfi hennar og áætlana um bætt verklag er þó ekki tilefni til að fjalla frekar um það atriði á grundvelli þessarar kvörtunar.

Lýk ég því meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.