Skattar og gjöld. Stöðubrot.

(Mál nr. 118/2025)

Kvartað var yfir álagningu Bílastæðasjóðs Reykjavíkur á stöðubrotsgjaldi.  

Umboðsmaður féllst ekki á að brotinu væri lýst með röngum hætti. Þá gæfu aðrar athugasemdir ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. mars 2025.

  

  

Vísað er til kvörtunar þinnar 17. mars síðastliðinn yfir ákvörðun Bílastæðasjóðs Reykjavíkur 12. sama mánaðar um að leggja á þig stöðubrotsgjald vegna lagningar bifreiðarinnar [...] við [...] í Reykjavík. Er gjaldið lagt á með stoð í 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Samkvæmt kvörtun þinni telur þú framangreinda álagningu hafa falið í sér óþarfa og óeðlilega beitingu smáatriða í lögum. Í kvörtuninni tiltekur þú sérstaklega að hvorki skilti né aðrar merkingar hafi gefið til kynna bann við stöðvun eða lagningu á þeim stað þar sem bifreið þinni var lagt, lýsing Bílastæðasjóðs á staðsetningu bifreiðarinnar á grassvæði sé röng, engin hætta hafi skapast af lagningunni og þú hafir áður fengið sekt vegna lagningar á sama stað en fallið hafi verið frá henni í kjölfar beiðni um endurupptöku. Í tilefni af kvörtun þinni var Reykjavíkurborg ritað bréf 19. mars síðastliðinn þar sem óskað var eftir öllum gögnum málsins. Bárust þau 24. sama mánaðar.

Í fyrrgreindri 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga er lagt bann við því að stöðva eða leggja skráningarskyldu ökutæki á stöðum sem ekki eru ætlaðir fyrir umferð slíkra ökutækja, svo sem gangstétt, göngustíg, göngugötu, hjólarein eða hjólastíg nema annað sé ákveðið, sbr. 1. mgr. 84. gr. laganna. Sama á við um umferðareyjar, grassvæði og aðra svipaða staði. Á ljósmynd, sem Reykjavíkurborg afhenti umboðsmanni, sést hvar bifreiðinni hefur verið lagt með þeim hætti að ekið hefur verið yfir steyptan kant og önnur hlið bifreiðarinnar er uppi á grónu svæði þar sem þó er nokkur möl eða sandur. Ljóst er að umrætt svæði er ekki ætlað fyrir umferð skráningarskyldra ökutækja og er því óheimilt samkvæmt 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga að leggja slíku ökutæki á þessu svæði. Ekki er nauðsynlegt að gefa bann við stöðvun og lagningu samkvæmt 3. mgr. 28. gr. umferðarlaga sérstaklega til kynna með skilti eða merkingu enda leiðir af lagagreininni að bannið gildir hvarvetna nema sérstök undantekning sé gerð þar á. Ekki verður fallist á að brotinu sé lýst með röngum hætti af hálfu Bílastæðasjóðs og aðrar athugasemdir þínar gefa ekki tilefni til sérstakrar umfjöllunar.

Með vísan til framangreinds er athugun minni á kvörtun yðar lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.