Gistihúsa, veitinga- og tækifærisleyfi.

(Mál nr. 37/2025)

Kvartað var yfir málsmeðferð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna töfum á afgreiðslu umsóknar um starfsleyfi fyrir veitingastað og erfitt hafi reynst að átta sig á því hvaða kröfum þurfi að fullnægja.  

Af fyrirliggjandi samskiptum félagsins við byggingar- og heilbrigðisfulltrúa varð ekki annað séð en að Reykjavíkurborg ynni að afgreiðslu málsins. Þá var ljóst af svörum heilbrigðiseftirlitsins til umboðsmanns að það taldi ástæðu þess að afgreiðsla málsins hafði tafist væri sú að ekki lægi fyrir leyfi byggingarfulltrúa. Einnig lá fyrir nýleg áætlun heilbrigðisfulltrúa um úttekt og skoðun en ekki varð betur séð en að sú áætlun hefði náð fram að ganga auk þess sem leiðbeint hefði verið um þá þætti er út af stóðu áður en hægt væri að veita starfsleyfi. Með vísan til þess að málið virtist vera í farvegi og virkri vinnslu taldi umboðsmaður ekki að ástæða til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun félagsins að svo stöddu

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. mars 2025.

  

  

Vísað er til kvörtunar þinnar 17. janúar sl. fyrir hönd A ehf. yfir málsmeðferð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Nánar tiltekið lýtur kvörtunin að töfum á meðferð heilbrigðiseftirlitsins á máli vegna umsóknar um starfsleyfi fyrir veitingastað og því að félaginu hafi reynst erfitt að átta sig á því hvaða kröfum þarf að fullnægja til að fá leyfið gefið út. Kvörtuninni fylgdu afrit tölvupóstsamskipta starfsmanna heilbrigðiseftirlitsins við félagið.

Í tilefni af kvörtuninni var Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur ritað bréf 28. janúar sl. þar sem þess var óskað að upplýst yrði hvað liði meðferð framangreindrar umsóknar og hvenær afgreiðslu hennar væri að vænta. Svar heilbrigðiseftirlitsins barst umboðsmanni 11. febrúar sl. Í því kemur fram að ekki liggi fyrir byggingarleyfi fyrir framkvæmdum á húsnæði sem A ehf. hyggst nýta fyrir veitingastaðinn. Þar sem 8. gr. reglugerðar nr. 903/2024, um hollustuhætti, áskilji að rekstraraðili sýni fram á samþykki byggingarfulltrúa liggi fyrir og starfsemin standist skipulag sé ekki fullnægt skilyrðum fyrir því að umsókn um starfsleyfi verði tekin til endanlegrar afgreiðslu.

Í kjölfar þess að svar heilbrigðiseftirlitsins barst umboðsmanni upplýstir þú í símtali við starfsmann umboðsmanns 18. febrúar síðastliðinn  að þú teldir heilbrigðiseftirlitið enn tefja meðferð málsins en þær tafir lytu nú að aðkomu þess að afgreiðslu byggingarfulltrúa á leyfisumsókninni. Sendir þú umboðsmanni 19. febrúar síðastliðinn afrit af tölvupóstsamskiptum félagsins og byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar. Þá sendir þú umboðsmanni 5. og 7. mars síðastliðinn afrit af tölvupóstsamskiptum félagsins og heilbrigðisfulltrúa vegna málsins. Að endingu bárust frá þér afrit tölvupóstsamskipta 25. mars síðastliðinn en þar sést meðal annars að heilbrigðisfulltrúi sendir tölvupóst 21. sama mánaðar til þín um nauðsyn samþykkis byggingarfulltrúa og hljóðvistarskýrslu. Svarar þú síðar sama dag og 25. sama mánaðar og spyrð hvort tilgreind hljóðvistarskýrsla nægi. Ekki verður séð að svar hafi borist við þeim erindum.

Ekki er gert ráð fyrir að umboðsmaður hafi afskipti af máli fyrr en stjórnvöld, þar með talið æðra stjórnvald, hafa lokið umfjöllun sinni um málið, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Af því leiðir meðal annars að almennt verður mál ekki tekið til meðferðar af hálfu umboðsmanns á meðan það er enn til meðferðar í stjórnsýslunni. Berist umboðsmanni kvörtun yfir töfum á afgreiðslu máls þegar nokkuð er liðið frá því að það kom til meðferðar og sá sem í hlut á hefur ítrekað erindi sitt hefur þó verið farin sú leið að spyrjast fyrir um hvað líði afgreiðslu málsins eða eftir atvikum svörum við erindum. Þetta hefur ekki síst verið gert til þess að greiða fyrir því að borgararnir fái sem fyrst úrlausn sinna mála eða upplýsingar um stöðu þeirra. Reyndin hefur í flestum tilvikum verið sú að stjórnvaldið hefur afgreitt málið eða gefið skýringar á því hvenær ráðgert er að afgreiða það. Umboðsmaður hefur hins vegar gætt varfærni við að fjalla um og taka afstöðu til málsmeðferðar í máli sem er enn til meðferðar, þar með talið hvort brotið hafi verið í bága við málshraðareglur stjórnsýsluréttarins.

Af fyrirliggjandi samskiptum félagsins við byggingar- og heilbrigðisfulltrúa verður ekki annað séð en að Reykjavíkurborg vinni að afgreiðslu málsins. Þá er ljóst af svörum heilbrigðiseftirlitsins til umboðsmanns að það telur ástæðu þess að afgreiðsla málsins hafi tafist vera þá að ekki liggi fyrir leyfi byggingarfulltrúa. Einnig liggur fyrir nýleg áætlun heilbrigðisfulltrúa um úttekt og skoðun en ekki verður betur séð en að sú áætlun hafi náð fram að ganga auk þess sem leiðbeint hefur verið um þá þætti er út af standa áður en hægt er að veita starfsleyfi.

Með vísan til þess að málið virðist vera í farvegi og virkri vinnslu tel ég ekki að ástæða sé fyrir umboðsmann til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtun félagsins að svo stöddu. Ég vek þó athygli á því að heimilt er að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu stjórnsýslumáls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er. Stjórnvaldsákvarðanir teknar á grundvelli þeirra laga sem hér eiga við verða almennt kærðar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 59. gr. laga nr. 160/2010, um mannvirki, og 65. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ef þú telur tilefni til þess getur þú því kært drátt á afgreiðslu mála félagsins hjá Reykjavíkurborg til nefndarinnar.

Með vísan til framangreinds lýk ég meðferð minni á kvörtun þinni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Ef þú telur síðar að frekari óhæfilegur dráttur verði á afgreiðslu málsins getur þú leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi, þar með talið eftir atvikum að fengnum úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.