Tafir hjá stjórnvaldi á afgreiðslu máls.

(Mál nr. 67/2025)

A kvartaði var yfir viðbrögðum Veitna ohf. vegna umsóknar um yfirtöku heimlagnar við fjöleignarhús og öðrum erindum því tengdu.  

Í kjölfar fyrirspurnar umboðsmanns svöruðu Veitur ohf. A og yfirtóku heimlögnina.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 4. apríl 2025.

  

  

Vísað er til kvörtunar þinnar 13. febrúar síðastliðinn yfir viðbrögðum Veitna ohf. vegna umsóknar um yfirtöku heimlagnar við fjöleignarhúsið [...] og öðrum erindum því tengdu, einkum hvað snertir skort á svörum við erindum þínum á árinu 2024 og í janúar síðastliðnum.

Í tilefni af kvörtuninni var Veitum ohf. ritað bréf 3. mars síðastliðinn þar sem óskað var upplýsinga um hvað liði meðferð og afgreiðslu umsóknarinnar og annarra erinda þinna vegna málsins. Í svari Veitna 17. þessa mánaðar, sem fylgir hjálagt með bréfi þessu, kemur fram að fyrirtækið hafi sett sig í samband við þig og svarað fyrirspurnum þínum. Þá hafi heimlögn við [...] verið yfirtekin. Loks hafi viðskiptamannakerfi, sem heldur utan um samskipti við viðskiptavini Veitna ohf., verið lagfært þannig að framvegis verða senda tilkynningar um að starfsmaður hafi látið af störfum komi til þess að viðskiptavinur sendi starfsmanni sem hefur hætt tölvupóst en svo mun hafa átt við um hluta erinda þinna til fyrirtækisins.

Þar sem kvörtunin laut að skorti á viðbrögðum fyrirtækisins við umsókn þinni og öðrum erindum, og í ljósi þess að úr því hefur verið bætt, tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Læt ég því athugun minni vegna kvörtunarinnar lokið, sbr. a-liður 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 um umboðsmann Alþingis.