Kvartað var yfir framkvæmd X ehf. vegna greiðslu við töku rafhleðslu úr hraðhleðslustöð félagsins.
Þar sem X ehf. er einkahlutafélag sem starfar á grundvelli einkaréttar voru ekki skilyrði til að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 16. september 2025.
Vísað er til kvörtunar þinnar 31. ágúst sl. sem beinist að X ehf. Í kvörtuninni er því lýst að félagið hafi tekið 7500 kr. út af debetreikningi þínum þó svo að þú hafir bara verið að taka rafhleðslu úr hraðhleðslustöð sem er rekin á vegum þess fyrir 950 kr. Þá kemur fram að þetta hafi verið leiðrétt sólarhring síðar.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk umboðsmanns að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögunum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Í 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að starfssvið umboðsmanns taki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að starfssvið hennar taki einnig til starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Ástæða þess að framangreint er rakið er sú að X ehf. er einkaaðili sem komið er á fót með stofnsamningi samkvæmt ákvæðum laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Samkvæmt þessu fellur sú starfsemi félagsins sem kvörtunin lýtur að ekki undir starfssvið umboðsmanns samkvæmt lögum nr. 85/1997 og er mér því ekki fært að taka hana til frekari meðferðar.
Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni af málinu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.