Utan valdsviðs.

(Mál nr. 418/2025)

A kvartaði yfir starfsháttum Icelandair ehf.

Þar sem starfsemi félagsins, sem starfar á einkamarkaði, fellur ekki undir starfssvið umboðsmanns voru ekki skilyrði til að kvörtunin yrði tekin til meðferðar. A var bent á að á grundvelli laga um loftferðir mætti freista þess að leita með athugasemdirnar til Samgöngustofu.

  

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. september 2025.

  

  

Vísað er til kvörtunar þinnar 14. september sl. sem beinist að flugfélaginu Icelandair ehf. Verður ráðið að hún lúti öðru fremur að því að flugfélagið hafi þrátt fyrir ítrekanir ekki greitt þér bætur sem það hafi lofað þér vegna neitunar á fari vegna yfirbókunar.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, tekur starfssvið hennar til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga auk starfsemi einkaaðila að því leyti sem þeim hefur að lögum verið fengið opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Önnur starfsemi einkaaðila fellur hins vegar ekki undir starfssvið umboðsmanns eins og það er afmarkað í lögum nr. 85/1997. Icelandair ehf. er einkaaðili sem starfar á grundvelli laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög og fellur því sem slíkur utan starfssviðs umboðsmanns. Enn fremur verður ekki ráðið að flugfélaginu hafi með lögum verið fengið vald til að taka ákvörðun um rétt eða skyldu manna í framangreindum skilningi. Af þessum sökum eru ekki uppfyllt skilyrði til að kvörtun þín verði tekin til frekari meðferðar af minni hálfu að því marki sem hún beinist að starfsemi og athöfnun flugfélagsins, þ.m.t. í tengslum við greiðslu bótanna sem það mun hafa fallist á að inna af hendi.

Vegna kvörtunarinnar tel ég þó rétt að taka fram að í XVI. kafla laga nr. 80/2022, um loftferðir, er fjallað um neytendavernd. Fjallað er um tjón vegna tafa, neitun um far og aflýsingu flugs í 204. gr. Þá segir meðal annars í 1. mgr. 207. gr. að Samgöngustofa skuli stuðla að og gæta hagsmuna neytenda í viðskiptum við flugrekendur, söluaðila og rekstraraðila flugvalla. Ég bendi enn fremur á að í 1. mgr. 208. gr. laganna segir að farþegar og aðrir sem eiga hagsmuna að gæta geti skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni samkvæmt ákvæðum kaflans til Samgöngustofu. Um þessi atriði er nánar kveðið á um í reglugerð nr. 466/2024, um réttindi flugfarþega. Í 3. gr. hennar kemur fram að farþegar og aðrir sem hafa hagsmuni að gæta geti skotið ágreiningi er varðar fjárhagslegar kröfur og einkaréttarlega hagsmuni skv. XVI. kafla laga nr. 80/2022, til Samgöngustofu. Í 4. gr. kemur fram að sá sem óski eftir úrskurði Samgöngustofu skuli greiða málskotsgjald að fjárhæð 5.000 kr. Ef fallist er á kröfu kvartanda í heild eða hluta skal málskotsgjald endurgreitt kvartanda af þjónustuveitanda sem kvartað er vegna.

Í samræmi við framangreint er þér fær sú leið að koma kvörtun þinni á framfæri við Samgöngustofu. Ég tek þó fram að með þessari ábendingu hefur engin afstaða verið tekið til þess hver eigi að vera viðbrögð stofnunarinnar við slíku erindi. Fari svo að þú leitir til Samgöngustofu og ert ósátt að fenginni afstöðu stofnunarinnar til málsins er þér fært að leita til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi og verður þá tekin afstaða til þess hvort, og að hvaða leyti, hún getur komið til athugunar af minni hálfu.

Með vísan til framangreinds læt ég athugun minni á málinu lokið, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.