A kvartaði yfir töfum á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn um dvalarskírteini. Í svari Útlendingastofnuanr við fyrirspurn umboðsmanns kom fram að A hefði verið veitt skírteinið.
Þar sem kvörtunin laut að töfum og málið hafði verið afgreitt taldi umboðsmaður ekki tilefni til frekari athugunar á því. Svör Útlendingastofnunar til umboðsmanns gáfu hins vegar tilefni til beina þeirri ábendingu til stofnunarinnar að taka málsmeðferð sína að ákveðnu leyti til skoðunar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 19. september 2025.
Vísað er til kvörtunar A 28. mars sl. yfir töfum á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn hennar um dvalarskírteini. Í tilefni kvörtunarinnar var Útlendingastofnun ritað bréf 19. maí sl. þar sem þess var óskað að umboðsmanni yrðu veittar upplýsingar um hvað liði meðferð og afgreiðslu umsóknarinnar. Þá var þess óskað að Útlendingastofnun afhenti afrit af tilgreindum gögnum.
Svar Útlendingastofnunar barst 3. júní sl. Í svarinu er meðferð málsins rakin og umboðsmaður upplýstur um að það sé nú til afgreiðslu hjá lögfræðiteymi stofnunarinnar enda hafi fullnægjandi gögn ekki borist. Ekki bárust gögn með svari Útlendingastofnunar. Stofnuninni var á nýjan leik ritað bréf 6. júní sl. þar sem sú ósk umboðsmanns um tilgreind gögn var áréttuð. Þá var þess óskað að Útlendingastofnun veitti frekari upplýsingar um meðferð málsins og hvenær hún hófst, þar með talið hvort gagnaöflun hefði hafist í septembermánuði 2024. Þá var þess einnig óskað að stofnunin lýsti afstöðu sinni til þess hvort hún teldi meðferð sína á umsókninni samræmast 3. mgr. 90. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, þess efnis að umsókn um dvalarskírteini skuli afgreidd innan sex mánaða frá því að hún er lögð fram, og eftir atvikum málshraðareglu þá sem mælt er fyrir um í 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Svar Útlendingastofnunar barst 12. september sl. ásamt gögnum. Í svarinu kom fram að A hefði verið veitt dvalarskírteini, sem hefði verið afhent 25. ágúst sl.
Þar sem kvörtun A lýtur að töfum við meðferð stjórnsýslumáls og umsókn hennar þar um hefur nú verið afgreidd og hún fengið dvalarskírteini tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af henni. Að því sögðu hefur athugun mín á málinu þó orðið mér tilefni til að senda Útlendingastofnun hjálagða ábendingu.
Með vísan til alls ofangreinds lýk meðferð minni á kvörtuninni með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Bréf umboðsmanns til Útlendingastofnunar 19. september 2025.
Það tilkynnist hér með að ég hef lokið máli A með bréfi því, sem hér fylgir í ljósriti. Þrátt fyrir þær lyktir málsins, sem þar koma fram, hefur athugun mín á því orðið mér tilefni til að koma á framfæri eftirfarandi ábendingu og þá með það fyrir augum að Útlendingastofnun hafi þau atriði, sem í henni koma fram, í huga eftirleiðis.
Líkt og rakið er í hjálögðu bréfi mínu var þess óskað bréfleiðis 19. maí sl. að upplýst yrði hvað liði meðferð og afgreiðslu umsóknar hennar auk þess sem afhendingu tilgreindra gagna var óskað. Engin gögn bárust með svari Útlendingastofnunar 3. júní sl. Með vísan til þess var beiðnin áréttuð með bréfi 6. sama mánaðar en þar að auki var óskað tilgreindra upplýsinga og skýringa af hálfu Útlendingastofnunar, meðal annars afstöðu hennar til þess hvort meðferð umsóknarinnar hefði verið í samræmi við lög.
Í svari Útlendingastofnunar við bréfinu 6. júní sl., sem barst 12. september sl. að undangenginni ítrekun, var beðist velvirðingar á því hve lengi hefði tafist að svara bréfinu. Í svarinu virðist gengið út frá því að með bréfinu 6. júní sl. hefði aðeins verið óskað eftir gögnum. Til samræmis við það er þeim spurningum, sem beint var til stofnunarinnar í bréfinu, ekki svarað heldur látið við það sitja að afhenda gögn og lýsa meðferð málsins með sams konar hætti og í bréfi stofnunarinnar til umboðsmanns 3. júní sl. Því til viðbótar er upplýst um að A hafi fengið dvalarskírteini.
Með vísan til framangreinds tel ég rétt að vekja athygli Útlendingastofnunar á því að samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er stjórnvöldum skylt að veita henni nauðsynlegar upplýsingar og skýringar. Í máli þessu liggur fyrir að það var ekki gert. Í ljósi lykta málsins taldi ég ekki tilefni til að rita stofnuninni annað bréf og árétta beiðnir mínar um skýringar og upplýsingar en mælist til þess að eftirleiðis verði betur gætt að því að þær séu veittar og þá jafnan innan hæfilegs tíma. Í því sambandi er minnt á að forsenda þess að umboðsmaður geti rækt það eftirlitshlutverk sitt með stjórnsýslunni sem henni er ætlað lögum samkvæmt er að stjórnvöld svari fyrirspurnum hennar og láti henni í té fullnægjandi upplýsingar og gögn sem hún óskar eftir.
Framangreindu til viðbótar vakti athygli mína að í þeim gögnum, sem Útlendingastofnun hefur afhent, er ekki að sjá þess merki að A eða umboðsmaður hennar hafi verið upplýst um tafir á afgreiðslu þess. Þar sem afgreiðsla umsóknarinnar tók lengri tíma en mælt er fyrir um 3. mgr. 90. gr. laga nr. 80/2016, um útlendinga, tel ég að rétt kynni að hafa verið að senda tilkynningu í samræmi við 3. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 3/1993. Beini ég þeirri ábendingu til stofnunarinnar að taka málsmeðferð sína að þessu leyti til skoðunar.