A kvartaði yfir úrskurði sýslumanns um umgengni barns við föður sinn.
Þar sem úrskurðurinn hafði ekki verið borinn undir dómsmálaráðherra innan lögmælts kærufrests var umboðsmanni ekki fært að taka málið til nánari athugunar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 25. september 2025.
Vísað er til kvörtunar þinnar 1. ágúst sl. sem beinist að sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og lýtur að úrskurði embættisins 15. maí sl. um umgengni við barn þitt. Nánar tiltekið snýr kvörtunin að því að við sáttameðferð hafi sáttamaður orðið vitni að ofbeldi og hótunum í þinn garð af hálfu föður barnsins. Sáttamaðurinn hefði hins vegar tjáð þér að hann hefði ekki heimild til að lýsa hegðun föðurins í sáttameðferðinni. Þar af leiðandi hafi úrskurðurinn um umgengnina ekki tekið mið af því.
Í samtali þínu við starfsmann minn 6. ágúst sl. kom fram að úrskurður sýslumanns hefði ekki verið kærður til dómsmálaráðuneytisins, sbr. 1. mgr. 78. gr. barnalaga nr. 76/2003, en kærufrestur vegna hans leið 15. júlí sl. Þá var ítrekað að kvörtunin lyti að áðurnefndri ákvörðun um umgengni og þá einkum því fyrirkomulagi að sáttamaður sé bundinn þagnarskyldu og að hann hafi ekki getað greint sýslumanni frá þeim hótunum sem þú kveður föður hafa haft uppi gagnvart þér.
Hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Mælt er fyrir um skilyrði þess að umboðsmaður geti tekið kvörtun til nánari athugunar í 6. gr. laga nr. 85/1997. Í 3. mgr. greinarinnar segir að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæði þetta byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í starfsemi þeirra sem hugsanlega samrýmist ekki lögum, áður en leitað er með kvörtun til umboðsmanns Alþingis, sem stendur utan stjórnkerfis þeirra.
Í 1. mgr. 33. gr. a. barnalaga, nr. 76/2003, er kveðið á um að áður en krafist er úrskurðar um umgengni sé foreldrum skylt að leita sátta og skal sýslumaður bjóða aðilum sáttameðferð. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar er markmiðið með sáttameðferð að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn máls sem er barni fyrir bestu og skal sáttamaður gæta þess að vera hlutlaus í máli og leitast við að draga fram þá hagsmuni sem leitt geta til þess að máli verði lokið með sátt. Í vottorði um sáttameðferð skal svo gera grein fyrir því hvernig sáttameðferð fór fram, helstu ágreiningsatriðum, afstöðu aðila og sjónarmiðum barns nema það sé talið ganga gegn hagsmunum barnsins, sbr. 6. mgr. greinarinnar. Samkvæmt sömu málsgrein eru þeir sem sinna sáttameðferð bundnir þagnarskyldu samkvæmt X. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993 en í því felst að sáttamanni er óheimilt að miðla eða notfæra sér sjálfur eða í þágu annarra upplýsingar um málsatvik sem leynt eiga að fara og hann hefur orðið áskynja um í starfi sínu eða vegna starfs síns. Þá ber honum að gera viðhlítandi ráðstafanir til þess að þær komist ekki til vitundar óviðkomandi, sbr. 3. mgr. 42. stjórnsýslulaga. Hvað sem því líður er þó ljóst að aðkoma sáttamanns er lögákveðinn liður í meðferð umgengnismála sem, eftir atvikum, lýkur svo með úrskurði sýslumanns um inntak umgengni barns við foreldri.
Líkt og greinir í úrskurði sýslumanns í málinu, sem fylgdi kvörtuninni, sæta úrskurðir í umgengnismálum kæru til dómsmálaráðherra innan tveggja mánaða frá dagsetningu þeirra, sbr. 78. gr. barnalaga nr. 76/2003. Þar sem fyrir liggur að úrskurður sýslumanns í málinu var ekki borinn undir dómsmálaráðherra innan kærufrests er mér ekki fært að taka kvörtunina til nánari athugunar, með vísan til fyrrgreindrar 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, en í framkvæmd umboðsmanns hefur verið litið svo á að skilyrðið um að leitað hafi verið til æðra stjórnvalds hafi í för með sér að aðili máls getur ekki leitað til umboðsmanns ef í ljós kemur að kærufrestur í máli er útrunninn.
Með vísan til alls framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtun þinni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.