Lögreglu- og sakamál. Ársfrestur.

(Mál nr. 435/2025)

A kvartaði yfir starfsháttum og framgöngu lögreglu er honum var birtur úrskurður.  

Þar sem þau atvik sem kvörtunin laut að féllu utan þess ársfrests sem mælt er fyrir um í lögum um umboðsmann var umboðsmanni ekki fært að taka málið til frekari athugunar. Umboðsmaður vakti þó athygli A á að hann gæti freistað þess að bera málið undir nefnd um eftirlit með lögreglu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. september 2025.

  

   

Vísað er til kvörtunar þinnar 26. september sl. sem beinist að ótilgreindu lögregluembætti. Nánar tiltekið lýtur kvörtunin að því að 23. október 2023 hafi þér verið birtur úrskurður dómstóls um nálgunarbann. Lúta aðfinnslur þínar að því að í kjölfar þess að þú gast ekki svarað símtali frá lögreglunni hafi hún haft samband við fjölskyldumeðlimi þína og vin og að lokum mætt á vinnustað þinn þar sem þér hafi verið birtur úrskurðurinn að viðstöddum samstarfsmönnum. Telur þú lögregluna ekki hafa gætt hófs við þessar aðgerðir og að þær hafi valdið þér verulegri vanlíðan og teflt starfsöryggi þínu í tvísýnu.

Í tilefni af kvörtuninni skal tekið fram að um skilyrði þess að kvörtun verði tekin til meðferðar af hálfu umboðsmanns er fjallað í 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þar segir í 2. mgr. að kvörtun skuli bera fram innan árs frá því er stjórnsýslugerningur sá, er um ræðir, var til lykta leiddur. Þar sem kvörtun þín lýtur að athöfnum lögreglu, sem áttu sér stað utan framangreinds ársfrests, eru ekki skilyrði að lögum til þess að hún verði tekin til frekari meðferðar.

Í ljósi efnis kvörtunarinnar er þó rétt að vekja athygli þína á því að nefnd um eftirlit með lögreglu starfar á grundvelli 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og er hlutverk hennar meðal annars að taka við kvörtunum á hendur lögreglu, til dæmis vegna starfsaðferða eða framkomu starfsmanns, sem fer með lögregluvald, sbr. b-lið 1. mgr. 35. gr. a. laganna. Ekki verður séð í gögnum málsins að þú hafir borið aðfinnslur þínar undir nefndina. Þú getur því farið þá leið að beina erindi til hennar. Farir þú þá leið tel ég einnig rétt að benda þér á að sértu enn ósáttur að fenginni niðurstöðu nefndarinnar getur þú leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.

Að endingu tel ég rétt, í ljósi þess að kvörtun þín lýtur að atvikum er áttu sér stað fyrir tæplega tveimur árum síðar, að vekja athygli þín á því samkvæmt 5. mgr. 35. gr. a. lögreglulaga skal vísa erindum frá ef tvö ár eru liðin frá þeirri háttsemi, sem kvörtun lýtur að, nema sérstakar ástæður mæli með því að taka málið til meðferðar.

Með vísan til framangreinds læt ég máli þínu lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.