A kvartaði yfir töfum á meðferð og afgreiðslu umsóknar um dvalarleyfi vegna náms hjá Útlendingastofnun. Kvörtunin laut einnig að málsmeðferð Háskóla Íslands í tengslum við fyrirhugað nám A við skólann. Af gögnum málsins virtist mega ráða að umsókn A vegna námsins hefði í reynd verið hafnað af háskólanum.
Þar sem málið hafði ekki verið lagt í þann farveg sem reglur háskólans mæltu fyrir um voru ekki uppfyllt skilyrði til að umboðsmaður fjallaði um kvörtunina að þessu leyti.
Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum málsins taldi umboðsmaður sig enn fremur ekki hafa forsendur til að álykta á annan veg en að dvalarleyfisumsóknin væri í virkri vinnslu hjá Útlendingastofnun og að enn hefði ekki orðið slíkur dráttur á afgreiðslu umsóknarinnar að tilefni stæði til frekari athugunar á kvörtuninni.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 30. september 2025.
I
Vísað er til kvörtunar þinnar 6. september sl. sem beinist að Háskóla Íslands og Útlendingastofnun. Lýtur kvörtunin að töfum á afgreiðslu umsóknar um dvalarleyfi vegna náms hjá Útlendingastofnun, sem virðist hafa verið lögð fram 28. maí sl., auk þess sem gerðar eru athugasemdir við málsmeðferð háskólans í tengslum við áður samþykkta umsókn þína um alþjóðlegt nám í [...] við skólann.
Kvörtuninni fylgdi m.a. afrit af tölvupóstsamskiptum þínum við háskólann. Þar kemur fram, sbr. tölvupóst frá 3. september sl., að nemendur þurfi að vera komnir til landsins í síðasta lagi 11. september.
II
Í upphafi er rétt að geta þess, að samkvæmt 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, þurfa nánar tilgreind skilyrði að vera uppfyllt svo kvörtun geti verið tekin til meðferðar. Þar á meðal er gerð sú krafa, sbr. 3. mgr. 6. gr. laganna, að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvaldið hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Ákvæðið byggist á því sjónarmiði að stjórnvöld skuli fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir eða annað í starfsemi þeirra sem hugsanlega samrýmist ekki lögum, áður en leitað er með kvörtun til umboðsmanns Alþingis, sem stendur utan stjórnkerfis þeirra. Í þessu felst, að ef lög eða reglur mæla fyrir um ákveðinn farveg kærumála, innan eða utan tiltekins stjórnvalds, ber fyrst að fylgja honum áður en umboðsmaður getur fjallað um málið. Af þessu leiðir jafnframt að umboðsmaður fjallar að jafnaði ekki um mál sem eru enn til meðferðar hjá stjórnvöldum með einum eða öðrum hætti.
Ástæða þess að þetta er tekið fram er sú að í 50. gr. reglna nr. 569/2009, fyrir Háskóla Íslands, sem settar hafa verið á grundvelli laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, er mælt fyrir um ferli kvartana og kærumála nemenda innan háskólans. Samkvæmt 4. mgr. 50. gr. reglnanna getur umsækjandi um inntöku í framhaldsnám borið synjun þar að lútandi undir háskólaráð. Áður en háskólaráð tekur ákvörðun leitar ráðið álits kærunefndar í málefnum nemenda við Háskóla Íslands. Samkvæmt ákvæðinu verður máli ekki skotið til háskólaráðs fyrr en endanleg ákvörðun eða afstaða deildarforseta liggur fyrir eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að erindi var fyrst skriflega lagt fyrir deildarforseta. Í 5. mgr. 50. gr. er mælt fyrir um að ákvarðanir háskólaráðs samkvæmt 50. gr. séu kæranlegar til áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla. Málum verður aftur á móti ekki skotið til áfrýjunarnefndarinnar fyrr en háskólaráð hefur tekið ákvörðun í málinu eða þrír mánuðir eru liðnir frá því að kæra var fyrst skriflega lögð fyrir ráðið. Ef um er að ræða synjun um inntöku í grunnnám, en það verður ekki fyllilega ráðið af kvörtuninni hvort svo sé eða hvort umsóknin hafi verið vegna framhaldsnáms, gildir 7. mgr. 47. gr. reglnanna. Þar segir að sviðsstjóri kennslusviðs taki ákvörðun um það hvort innritun í grunnnám skuli heimiluð, að fenginni umsögn hlutaðeigandi deildar. Umsækjanda er heimilt að kæra synjun sviðsstjóra um innritun til áfrýjunarnefndar í málefnum háskólanema samkvæmt 20. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla.
Með vísan til fyrirliggjandi gagna málsins, sbr. einkum tölvupóst háskólans til þín 3. september sl., virðist nú mega ganga út frá því að þér hafi í reynd verið synjað um inntöku í grunnnám þetta skólaárið, enda má ráða af tölvupóstinum að þú hafir þurft að vera komin til landsins til að hefja námið í síðasta lagi 11. september sl. Af kvörtuninni og fylgigögnum með henni verður hins vegar ekki ráðið að þú hafir lagt málið í þann farveg sem fyrrgreindar reglur nr. 569/2009 gera ráð fyrir. Af framangreindum sökum tel ég ekki uppfyllt skilyrði fyrir því að ég taki kvörtunina til nánari athugunar, að því leyti sem hún beinist að Háskóla Íslands. Þegar kæruleiðir samkvæmt fyrrgreindum reglum nr. 569/2009 hafa verið tæmdar er þér þó velkomið að leita til mín á nýjan leik með kvörtun, teljir þú tilefni til.
III
Líkt og fyrr greinir lýtur kvörtunin, auk framangreinds, að töfum á afgreiðslu Útlendingastofnunar á umsókn þinni um dvalarleyfi vegna náms. Af fylgigögnum með kvörtuninni verður ráðið að þú hafir nýlega átt í virkum samskiptum við stofnunina. Þannig hafi hún með tölvupóstum meðal annars frá 6., 12. og 28. ágúst sl. óskað eftir nánar tilgreindum viðbótargögnum vegna umsóknarinnar.
Samkvæmt fyrrgreindri 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, hefur umboðsmaður að jafnaði ekki afskipti af máli fyrr en stjórnvöld hafi lokið umfjöllun sinni um málið. Í þeim tilvikum sem umboðsmanni berast kvartanir vegna tafa á afgreiðslu mála, og sá sem í hlut á hefur ítrekað erindi sitt, hefur aftur á móti almennt verið farin sú leið, og þá með hliðsjón af fyrirliggjandi samskiptum viðkomandi við stjórnvaldið sem á í hlut, að spyrjast fyrir um hvað líði afgreiðslu viðkomandi mála.
Umboðsmaður hefur hins vegar gætt varfærni gagnvart því að fjalla um og taka afstöðu til þess hvort málsmeðferð stjórnvalds hafi brotið í bága við málshraðareglu áður en málið hefur verið til lykta leitt. Rétt er þó að taka fram að samkvæmt óskráðri meginreglu stjórnsýsluréttar skulu ákvarðanir í málum teknar svo fljótt sem unnt er, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þetta hefur gjarnan verið orðað svo að leysa beri úr málum borgaranna og erindum þeirra án þess að óeðlilegar eða óréttlættar tafir verði þar á. Það fer eftir umfangi viðkomandi máls og álagi í starfi stjórnvaldsins hvaða tími telst hæfilegur og eðlilegur við afgreiðslu þess. Verður því að ætla stjórnvöldum nokkuð svigrúm þegar kemur að því að meta hversu langur tími geti talist eðlilegur við afgreiðslu hvers og eins máls.
Með hliðsjón af framangreindu, og í ljósi fyrirliggjandi samskipta Útlendingastofnunar við þig í tengslum við málið hef ég ekki forsendur til að álykta á annan veg en að það sé í virkri vinnslu innan stofnunarinnar. Að gættri þeirri framvindu málsins tel ég að enn hafi ekki orðið slíkur dráttur á afgreiðslu umsóknar þinnar að tilefni sé til að ég taki kvörtunina til frekari athugunar. Þér er þó velkomið að leita til mín að nýju með kvörtun verði frekari dráttur á málsmeðferð Útlendingastofnunar.
Með vísan til framangreinds, svo og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, læt ég umfjöllun minni um kvörtunina lokið.