A kvartaði yfir töfum á afgreiðslu mennta- og barnamálaráðuneytisins á kæru hans á ákvörðun framhaldsskóla um synjun á aðgangi að gögnum stjórnsýslumáls.
Umboðsmaður hafði áður óskað eftir upplýsingum um hvað liði meðferð og afgreiðslu málsins í tilefni af kvörtun A. Í svörum ráðuneytisins þá kom fram að til stæði að ljúka afgreiðslu málsins í aprílmánuði 2025. Í svörum ráðuneytisins nú kom fram að þær fyrirætlanir hefðu ekki gengið eftir en að stefnt væri að því að afgreiðslu málsins yrði lokið um miðjan septembermánuð 2025. Taldi umboðsmaður því ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar að svo stöddu.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. ágúst 2025.
Vísað er til kvörtunar þinnar 4. júlí sl. sem beinist að mennta- og barnamálaráðuneytinu og lýtur að töfum á afgreiðslu kæru vegna ákvörðunar X um að synja þér um aðgang að gögnum í stjórnsýslumáli sem þú varst aðili að. Í kjölfar fyrirspurnar minnar til ráðuneytisins vegna eldri kvörtunar þinnar sama efnis frá 3. febrúar sl., í máli nr. 57/2025, fékk ég þau svör að ráðuneytið stefndi að því að ljúka afgreiðslu málsins fyrir lok aprílmánaðar 2025.
Í tilefni af nýrri kvörtun þinni, þar sem fram kom að ráðuneytið hefði enn ekki úrskurðað í málinu, var því á ný ritað bréf 18. júlí sl. og þess óskað að veittar yrðu upplýsingar um hvað liði meðferð og afgreiðslu kærunnar. Í meðfylgjandi svari ráðuneytisins 22. ágúst sl. kemur fram að sú fyrirætlan að ljúka afgreiðslu málsins fyrir lok apríl 2025 hafi ekki gengið eftir og að vinnsla þess sé enn í gangi. Ráðuneytið stefni þó á að ljúka afgreiðslu málsins um miðjan september 2025.
Af fyrrgreindu svari ráðuneytisins til mín verður ráðið að ákvörðunar í máli þínu megi vænta á næstu vikum. Með vísan til þess tel ég ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu að svo stöddu. Læt ég því umfjöllun minni vegna kvörtunarinnar lokið, sbr. a-liður 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Verði frekari dráttur á afgreiðslu kærunnar getur þú leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.