A kvartaði yfir breyttri framkvæmd endurhæfingargreiðslna.
Þar sem A hafði ekki freistað þess að koma athugasemdum sínum á framfæri við viðeigandi stjórnvöld voru ekki skilyrði að svo stöddu til að umboðsmaður tæki kvörtunina til meðferðar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 28. október 2025.
Vísað er til kvörtunar þinnar 19. október sl., sem beinist að Tryggingastofnun og lýtur að breyttri framkvæmd endurhæfingargreiðslna samhliða námi. Ég ræð af kvörtuninni að þar eigir þú við þá framkvæmd sem nánar er kveðið á um í 27. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, eins og þeim hefur síðar verið breytt, og reglugerð nr. 933/2025, um sjúkra- og endurhæfingargreiðslur, og þá einkum 9. gr. hennar, sem félags- og húsnæðismálaráðherra hefur sett á grundvelli laga nr. 100/2007.
Samkvæmt lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er hlutverk hans almennt að hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og geta þeir, sem telja sig hafa verið beitta rangsleitni af hálfu þeirra, kvartað af því tilefni til umboðsmanns, sbr. 2. mgr. 4. gr. laganna.
Um skilyrði þess að umboðsmaður geti tekið kvörtun til nánari athugunar er fjallað í 6. gr. laga nr. 85/1997. Segir meðal annars í 3. mgr. 6. gr. að megi skjóta máli til æðra stjórnvalds sé ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Að baki þessu ákvæði býr það sjónarmið að stjórnvöld skulu fyrst fá tækifæri til að leiðrétta ákvarðanir, sem hugsanlega eru rangar, áður en leitað er til aðila utan stjórnkerfis þeirra eins og umboðsmanns Alþingis. Af framangreindum ákvæðum leiðir meðal annars að umboðsmaður fjallar almennt ekki um mál nema stjórnvöldum hafi fyrst verið gefinn kostur á að taka afstöðu til þeirra eða á meðan það er enn til meðferðar hjá stjórnvöldum. Í samræmi við þetta þarf kvörtun til umboðsmanns að jafnaði að beinast að tiltekinni úrlausn eða háttsemi stjórnvalds og þær kæruleiðir, sem kunna að vera tiltækar innan stjórnsýslunnar, þurfa að hafa verið nýttar. Þegar um er að ræða athugasemdir um tiltekna starfshætti eða verklag stjórnvalda hefur verið talið rétt að slíkar athugasemdir hafi verið bornar undir hlutaðeigandi stjórnvald, og eftir atvikum það stjórnvald sem fer með yfirstjórn þess, áður en ágreiningur vegna þess kemur til umfjöllunar af hálfu umboðsmanns.
Ástæða þess að þetta er rakið er sú að af kvörtun þinni verður ekki skýrlega ráðið hvort þú hafir komið athugasemdum þínum á framfæri við Tryggingastofnun eða félags- og húsnæðismálaráðherra, sem er sá ráðherra sem fer með yfirstjórn þeirra málefna sem kveðið er á um í lögum nr. 100/2007, sbr. 8. gr. laganna. Þá liggur ekki fyrir hvort að tekin hafi verið ákvörðun í máli þínu á grundvelli laganna um rétt þinn til endurhæfingargreiðslna. Ef svo er vil ég benda þér á að samkvæmt 13. gr. laganna kveður úrskurðarnefnd velferðarmála upp úrskurði um ágreiningsefni vegna ákvarðana sem teknar eru á grundvelli þeirra, þ.m.t. ákvarðana um endurhæfingargreiðslur.
Í ljósi þess og með hliðsjón af framangreindu tel ég ekki uppfyllt skilyrði til að taka kvörtun þína til athugunar að svo stöddu heldur tel ég rétt, teljir þú tilefni til, að þú komir athugasemdum þínum á framfæri við fyrrgreind stjórnvöld. Sértu ósátt að fenginni afstöðu þeirra getur þú leitað til umboðsmanns á ný með kvörtun þar að lútandi og verður þá tekin afstaða til þess hvort og að hvaða marki málið getur komið til athugunar af hálfu umboðsmanns.
Með vísan til framangreinds og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 læt ég máli þínu lokið af minni hálfu.