A kvartaði annars vegar yfir Alþingi og hins vegar lögreglunni. Í kvörtuninni voru gerðar athugasemdir við ýmis atriði, þ. á m. árangurslaust fjárnám hjá A, svo og framkomu lögreglunnar gagnvart A í gegnum árin.
Af gögnum málsins mátti ráða að flest atriði í kvörtuninni féllu utan skilyrða laga um umboðsmann Alþingis. Hvað varðaði framkomu lögreglunnar var bent á að leita þurfi fyrst til nefndar um eftirlit með lögreglu áður en kvartaði væri til umboðsmanns.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 31. október 2025.
I
Vísað er til kvörtunar þinnar sem barst í tvennu lagi, dagana 22. og 24. september sl. Beinist hún annars vegar að Alþingi og hins vegar að lögreglunni. Hvað Alþingi snertir tekur þú fram að það hafi misnotað stjórnarskránna frá árinu 1986. Hvað snertir lögregluna er rakið að tvö tilgreind lögregluembætti felli ítrekað niður mál þar sem þú ert brotaþoli og búin séu til mál þar sem þú sért sakborningur. Tekur þú sérstaklega fram að dómstólar taki þátt í þessu með lögreglunni. Í því sambandi kom fram að fyrirhugað væri að taka fyrir mál gegn þér fyrir Héraðsdómi X [...]. Þá hafi lögreglan brotist inn til þín í [...] 2024 án heimildar. Kvörtuninni fylgdi sektargerð frá lögreglustjóranum á X, afrit af aðfaragerð, mætingarskýrsla lögreglu og tilkynning um fyrirhugaða skráningu á vanskilaskrá.
II
Í tilefni af kvörtunum þínum tek ég fram að hlutverk umboðsmanns Alþingis er að hafa í umboði Alþingis eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga á þann hátt sem nánar greinir í lögum og tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Er tekið fram í 2. mgr. 4. gr. laganna að hver sá sem telur sig hafa verið beittan rangsleitni af hálfu einhvers aðila sem eftirlit umboðsmanns tekur til geti kvartað af því tilefni til umboðsmanns. Samkvæmt því verður kvörtun að varða tiltekna ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi eða hafa áhrif á hagsmuni þess sem leitar til umboðsmanns.
Í 1. mgr. 6. gr. laganna segir jafnframt að í kvörtun skuli lýst þeirri úrlausn eða annarri háttsemi stjórnvalda sem er tilefni kvörtunar. Þar er gerð sú krafa að öll tiltæk sönnunargögn um málsatvik fylgi kvörtun. Þá skal bera fram kvörtun innan árs frá því er stjórnsýslugernir sá, er um ræðir, var til lykta leiddur, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Þá segir í 3. mgr. greinarinnar að ef skjóta má máli til æðra stjórnvalds er ekki unnt að kvarta til umboðsmanns fyrr en æðra stjórnvald hefur fellt úrskurð sinn í málinu. Í ljósi þeirra lagareglna sem gilda um starfsemi umboðsmanns Alþingis er mikilvægt að kvörtun til umboðsmanns gefi skýra mynd af þeim athöfnum stjórnvalda sem kvörtun beinist að þannig að hægt sé m.a. að leggja mat á efni kvörtunar. Liggi slíkt ekki fyrir með skýrum hætti getur umboðsmaður ekki athugað málið nánar.
III
Hvað varðar þann þátt kvörtunarinnar sem snýr að Alþingi tek ég fram að í a-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur meðal annars fram að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa Alþingis. Samkvæmt því eru ekki uppfyllt skilyrði til þess að fjalla um þann þátt kvörtunarinnar.
Varðandi athugasemdir þínar við framkomu lögreglu í þinn garð er ekki að fullu ljóst til hvaða atvika er vísað fyrir utan ætlað innbrot lögreglu frá því í [...] 2024. Í því sambandi er rétt að vekja athygli þína á því að nefnd um eftirlit með lögreglu starfar á grundvelli 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 og er hlutverk hennar meðal annars að taka við kvörtunum á hendur lögreglu, til dæmis vegna starfsaðferða eða framkomu starfsmanns, sem fer með lögregluvald, sbr. b-lið 1. mgr. 35. gr. a. laganna. Ekki verður séð í gögnum málsins að þú hafir borið aðfinnslur þínar undir nefndina. Ástæða þess að þetta er nefnt er sú að á grundvelli fyrrgreindrar 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 hefur umboðsmaður talið rétt að leitað sé til nefndarinnar áður en umboðsmaður tekur mál til meðferðar sem varða framkomu eða starfsaðferðir lögreglu. Þú getur því farið þá leið að beina erindi til nefndar um eftirlit með lögreglu en ef þú ert ósátt að fenginni niðurstöðu nefndarinnar getur þú leitað til mín á nýjan leik með kvörtun þar að lútandi.
Hvað varðar þann þátt kvörtunarinnar sem snýr að málsmeðferð dómstóla tek ég fram að starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa dómstóla, sbr. b-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Þess vegna eru ekki uppfyllt skilyrði til að fjalla um þann þátt kvörtunarinnar.
Loks fylgdi kvörtuninni endurrit úr gerðarbók vegna fjárnáms sem framkvæmt var án árangurs [...] sl. Þar kemur meðal annars fram að þú hafir lýst því yfir að þú hygðist bera lögmæti gerðarinnar undir dómstól. Í því sambandi tel ég rétt að benda á að í c-lið 4. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, kemur fram að starfssvið umboðsmanns nái ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda sem með beinum lagafyrirmælum er ætlast til þess að menn leiti leiðréttingar á með málskoti til dómstóla. Ástæða þess að ég bendi á þetta er sú að lög nr. 90/1989, um aðför, kveða á um að ágreiningur vegna framkvæmdar aðfaragerðar, sem er lokið, verði borin undir héraðsdóm til úrlausnar, sbr. 15. kafla laganna. Fellur það því utan við starfssvið umboðsmanns Alþingis að fjalla um ágreining sem kann að koma upp vegna aðfarar, svo sem um réttmæti krafna. Er mér því ekki fært að fjalla um það atriði í kvörtuninni.
IV
Með vísan til framangreinds læt ég máli þínu lokið af minni hálfu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.