A kvartaði yfir töfum á meðferð erindis síns til Reykjavíkurborgar og Vinnueftirlitsins eftir að borgin hafði framsent erindið þangað.
Þar sem Reykjavíkurborg hafði brugðist við erindinu og A hafði ekki sjálfur leitað til Vinnueftirlitsins og kannað stöðu málsins þar taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast vegna kvörtunarinnar.
Umboðsmaður lauk málinu með bréfi 14. nóvember 2025.
Vísað er til kvörtunar þinnar 31. október sl. sem beinist að byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar. Lýtur kvörtunin að töfum á viðbrögðum sveitarfélagsins við erindi þínu 10. september sl. vegna byggingakrana sem komið hefur verið fyrir í nágrenni heimilis þíns.
Af kvörtuninni og þeim gögnum sem henni fylgdu verður ráðið að brugðist hafi við erindi þínu þann 9. október sl., að undangengnum ítrekunum þínum, með því að upplýsa þig meðal annars um að Vinnueftirlitið hefði almennt og sértækt eftirlit með byggingakrönum. Í ljósi þess var erindi þitt framsent Vinnueftirlitinu sama dag. Þá varst þú upplýstur um að vinna hefði hafist við að taka saman tiltekin gögn sem þú óskaðir. Í svarinu kom einnig fram að starfsmenn byggingarfulltrúa hefðu gengið á vettvang og framkvæmt sjónskoðun á byggingarkrönunum sem um ræðir. Í kvörtuninni eru gerðar athugasemdir við að enn sem komið er hafi engin frekari hreyfing orðið á málinu af hálfu stjórnvalda.
Þar sem fyrir liggur að erindi þínu til byggingarfulltrúans hefur verið svarað og það framsent Vinnueftirlitinu, tel ég ekki ástæðu til aðhafast sérstaklega að því leyti.
Hvað snertir aðkomu Vinnueftirlitsins að málinu er rétt að taka fram að það er meginregla í stjórnsýslurétti að stjórnvöldum ber almennt að svara erindum sem þeim berast án ástæðulausra tafa, sbr. meginreglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hvort um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða á að stjórnvald svari erindi er því byggt á mati hverju sinni þar sem líta verður meðal annars til efnis viðkomandi erindis og málsmeðferðarreglna sem stjórnvöldum ber að fylgja við afgreiðslu þess. Með tilliti til fjölda erinda sem stjórnvöldum berast verður jafnframt að ætla þeim nokkuð svigrúm í þessu efni. Ég hef almennt litið svo á að rétt sé að sá sem ber fram kvörtun til mín vegna þess að dráttur hafi orðið á því að stjórnvald svaraði erindi frá honum eða bregðist við að öðru leyti leiti fyrsta kastið sjálfur til stjórnvaldsins með ítrekun á erindinu og gefi því þannig færi á að bregðast við áður en leitað er til mín með kvörtun. Að þessu gættu, og þar sem ekki verður ráðið af kvörtuninni að þú hafir leitað til Vinnueftirlitsins og óskað upplýsinga um stöðu málsins og hvort það hyggist grípa til aðgerða vegna þess, tel ég jafnframt ekki ástæðu til að aðhafast vegna þessa atriðis.
Með vísan til framangreinds lýk ég athugun minni á kvörtuninni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997. Fari svo að þú leitir til Vinnueftirlitsins og óskir upplýsinga um málið getur þú leitað til mín á nýjan leik verði óhóflegur dráttur á viðbrögðum stofnunarinnar. Með þessu hef ég þó enga afstöðu tekið til þess hver viðbrögð Vinnueftirlitsins við slíku erindi ættu að vera.