A kvartaði yfir úrskurði kærunefndar útlendingamála. Með úrskurði nefndarinnar var stjórnsýslukæru A á ákvörðun Útlendingastofnunar, þar sem umsókn A um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi var synjað, vísað frá. Sú niðurstaða byggðist á því að kærufrestur hefði verið liðinn þegar A bar fram kæru sína.
Fyrir lá að A taldi sig hafa óskað þess að ákvörðun Útlendingastofnunar yrði kærð, í tölvupósti sem talsmaður hennar svaraði ekki. Þrátt fyrir það lagði talsmaður A ekki fram stjórnsýslukæru fyrir hennar hönd. Samkvæmt gögnum málsins varð A þetta ekki ljóst fyrr en skömmu eftir að kærufrestur var liðinn þegar starfsmaður Útlendingastofnunar hafði samband við hana vegna heimfarar. Hún bar sjálf fram kæru daginn eftir að hún fékk þessar upplýsingar.
Umboðsmaður taldi að ályktanir kærunefndarinnar um að A hefði sjálf haft sérstakt tilefni til að hafa samband við Útlendingastofnun með fyrirspurn um mál sitt eftir að henni var tilkynnt um synjun stofnunarinnar væru ekki forsvaranlegar enda hafði henni verið skipaður talsmaður sem hafði það hlutverk að koma fram fyrir hennar hönd gagnvart stjórnvöldum. Þá taldi umboðsmaður að gjalda yrði varhug við því að láta umsækjendur um alþjóðlega vernd bera hallann af mistökum talsmanna með þeim hætti sem nefndin gerði í máli A. Hún lagði því til grundvallar að kærunefnd útlendingamála hefði ekki sýnt fram á að málefnaleg og forsvaranleg sjónarmið hefðu búið því að baki að láta A bera hallann af mistökum talsmanns síns með þeim afleiðingum að síður ætti að taka stjórnsýslukæru A til meðferðar.
Með hliðsjón af almennum rökum að baki kærufrestum í stjórnsýslumálum taldi umboðsmaður að við mat á því hvort fjalla ætti um kæru sem berst að liðnum kærufresti gæti stjórnvöldum verið rétt að líta meðal annars til þess tíma sem hefði liðið frá því kærufrestur rann út þar til kæra var borin fram. Þá tók umboðsmaður fram að einnig kynni að skipta máli að hvaða marki kærufresturinn sjálfur felur í sér frávik frá almennum þriggja mánaða kærufresti samkvæmt stjórnsýslulögum. Umboðsmaður taldi þessi atriði hafa átt að koma til álita í máli A. Í ljósi þess að kærunefndin hafði ekki lagt mat á þau var það niðurstaða umboðsmanns að mat kærunefndarinnar að þessu leyti hefði ekki verið fullnægjandi.
Að lokum rakti umboðsmaður að lögákveðið hlutverk talsmanna er meðal annars að gæta hagsmuna og tala máli útlendings eða þess sem sækir um alþjóðlega vernd hér á landi. Með hliðsjón af því og atvikum málsins taldi umboðsmaður að kærunefndinni hefði borið að leggja atviksbundið mat á hvort starfshættir skipaðs talsmanns A kynnu að hafa þýðingu við mat á því hvort veigamiklar ástæður mæltu með því að kæra A yrði tekin til meðferðar samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Það hafði hins vegar ekki verið gert og var það því niðurstaða umboðsmanns að mati kærunefndarinnar hefði verið áfátt. Auk þess benti umboðsmaður á að ekki yrði séð að kærunefndin hefði við mat sitt litið til þess að A var eini aðili málsins og því enginn sem hafði andstæða hagsmuni af úrlausn þess.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til kærunefndar útlendingamála að nefndin tæki mál A til nýrrar afgreiðslu kæmi fram beiðni þar um og hagaði þá meðferð málsins í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Jafnframt var því beint til nefndarinnar að hafa umrædd sjónarmið framvegis í huga í störfum sínum.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 28. nóvember 2025.