Börn. Barnavernd. Fóstursamningur. Stjórnsýslukæra. Frávísun.

(Mál nr. 12947/2024)

A og B kvörtuðu yfir úrskurði barnaverndarþjónustu X þar sem staðfest var ákvörðun um að fella úr gildi fóstursamning þeirra vegna C og að barninu yrði fundið nýtt fósturheimili. Sá úrskurður var kærður til úrskurðarnefndar velferðarmála sem vísaði kærunni frá á þeim forsendum að kæruheimild til nefndarinnar lyti einungis að ágreiningi um fullgilda fóstursamninga. Enginn lögformlegur fóstursamningur lægi fyrir í málinu heldur einungis drög að slíkum samningi sem ekki hefðu verið undirrituð. Athugun umboðsmanns var afmörkuð við það hvort frávísun nefndarinnar hefði verið í samræmi við lög.

Þrátt fyrir áskilnað barnaverndarlaga um að gera skuli skriflegan fóstursamning var ljóst að ekki hafði verið gætt að því af hálfu barnaverndarþjónustu X að samningur hennar og A og B væri á því formi. Þá varð ekki heldur séð að skrifað hefði verið undir samning um vistun C utan heimilis hjá A og B frá því að síðasti vistunarsamningur þeirra rann út. Um tveggja og hálfs árs skeið hafði því ekki verið til að dreifa undirrituðum og skriflegum samningi um vistun eða fóstur C með tilheyrandi óvissu um grundvöll þeirrar ráðstöfunar og það réttarsamband sem bundinn var endi á með úrskurði barnaverndarþjónustunnar.

Umboðsmaður taldi ljóst að barnaverndarþjónustan hefði lagt málið í þann lagalega farveg að kveða upp úrskurð um að binda enda á réttarsamband hennar og A og B og þar með þau réttindi og skyldur sem í því fólst. Hún taldi ekki annað séð en að stjórnsýslukæra þeirra hefði borist úrskurðarnefnd velferðarmála innan kærufrests og uppfyllt þær formkröfur sem væru gerðar til hennar. Hún lagði áherslu á að álitaefni um form fóstursamnings og réttaráhrif þess að hann væri ekki í því formi sem áskilið væri í lögum lytu að efni málsins og nánara mati á lagagrundvelli þess og málsatvikum. Væri það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki hefði komist á fullgildur fóstursamningur milli aðila yrði ekki annað ráðið en að litið væri svo á að úrskurður barnaverndarþjónustunnar hefði verið kveðinn upp á röngum lagagrundvelli. Almennt væri það talinn efnislegur annmarki á ákvörðun stjórnvalds sem gæti leitt til ógildis eða ógildingar ákvörðunar. Því yrði að telja að nefndin hefði verið bær til þess að taka afstöðu til þess hvort úrskurður barnaverndarþjónustunnar hefði að þessu leyti verið kveðinn upp á réttum lagagrundvelli og þá eftir atvikum ógilda hann og vísa málinu til nýrrar meðferðar. Þar sem það var ekki gert var það niðurstaða umboðsmanns að frávísun nefndarinnar á kæru A og B hefði ekki verið í samræmi við lög.

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar að taka kæru A og B til nýrrar meðferðar, kæmi fram ósk um það frá þeim, og leysa þá úr málinu í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu. Jafnframt beindi hún því til nefndarinnar að framvegis yrði tekið mið af þeim sjónarmiðum sem þar kæmu fram.

  

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 5. desember 2025.