X hf. leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir málsmeðferð matvælaráðuneytisins á umsókn félagsins um leyfi til veiða á langreyðum. Í kvörtuninni voru gerðar athugasemdir við meðferð og niðurstöðu málsins og meðal annars byggt á því að ráðherra hefði ekki verið heimilt að tímabinda leyfi X hf. við árið 2024, auk þess sem byggt var á því að við afgreiðslu umsóknarinnar hjá ráðuneytinu hefði ekki verið gætt að málshraða með fullnægjandi hætti.
Umboðsmaður benti á að ákvörðun ráðherra um útgáfu leyfis til hvalveiða væri matskennd og ráðherra hefði ákveðið svigrúm til ákvörðunartöku þar að lútandi. Þó yrði meðal annars að gæta að meðalhófi við töku slíkra ákvarðana með hliðsjón af þeim hagsmunum sem væru undirliggjandi. Umboðsmaður taldi að ákvörðun ráðuneytisins um að tímabinda leyfi X hf. eingöngu við árið 2024 hefði ekki verið reist á fullnægjandi heildstæðu mati, auk þess sem ekki hefði verið gætt meðalhófs við töku ákvörðunarinnar. Hún leit meðal annars til þess að sú breyting að takmarka gildistíma leyfisins við árið 2024 yrði að teljast íþyngjandi fyrir X hf. að teknu tilliti til þeirra hagsmuna sem félagið hefði sem atvinnurekandi og fyrri framkvæmdar við útgáfu sambærilegra leyfa til félagsins.
Umboðsmaður taldi jafnframt ástæðu til að gera athugasemdir við tiltekin atriði í málsmeðferð ráðuneytisins. Þannig taldi hún, þegar litið væri til þess tíma sem hefði liðið frá því að umsókn X hf. barst ráðuneytinu þar til óskað var eftir frekari gögnum og upplýsingum frá félaginu, að ráðuneytinu hefði borið að gæta betur að málshraðareglu stjórnsýslulaga að þessu leyti. Umboðsmaður taldi einnig að það hefði ekki verið í samræmi við þá reglu að draga það svo lengi sem raun varð á að óska eftir lögbundinni umsögn Hafrannsóknastofnunar. Hún leit meðal annars til þess að X hf. hefði haft hagsmuni af því að ákvörðun um leyfið yrði tekin sem fyrst þannig að það gæti skipulagt atvinnurekstur sinn.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu.
Umboðsmaður lauk málinu með áliti 18. desember 2025.