Atvinnuleysistryggingar. Endurgreiðsla ofgreiddra bóta. Stjórnsýsluviðurlög. Stjórnsýslukæra. Úrskurðarskylda. Frávísun. Lögvarðir hagsmunir. Afturköllun. Leiðbeiningarskylda stjórnvalda. Rannsóknarreglan. Rökstuðningur.

(Mál nr. 12549/2024)

A kvartaði yfir úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem vísað var frá kæru hans vegna þeirrar ákvörðunar Vinnumálastofnunar að hann skyldi endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir nánar tilgreint tímabil að viðbættu 15% álagi. Úrskurðarnefndin vísaði kærunni frá á þeim forsendum að ekki yrði séð að ágreiningur væri til staðar í málinu þar sem ákvörðun um að leggja álag á kröfuna hefði verið afturkölluð og það endurgreitt. Athugun umboðsmanns var afmörkuð við hvort það hefði samrýmst úrskurðarskyldu nefndarinnar að fjalla ekki um undirliggjandi ákvörðun um ofgreiðslu bótanna og um frávísun málsins að því leyti sem kæran laut að álaginu.

Umboðsmaður vísaði til þess að upphaflegt efni kæru A til nefndarinnar virtist eingöngu hafa lotið að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að leggja álagið á endurgreiðslukröfuna. Við meðferð kærumálsins hefði hann hins vegar komið á framfæri athugasemdum við nefndina sem bentu til þess að kæran lyti jafnframt að undirliggjandi ákvörðun Vinnumálastofnunar um ofgreiðslu atvinnuleysisbótanna. Þrátt fyrir þetta fjallaði nefndin ekki um málið í heild sinni í einum og sama úrskurðinum heldur leiðbeindi A um að leggja fram nýja kæru vegna viðbótarathugasemdanna. Þar sem ekki varð betur séð en að athugasemdirnar lytu að efni sem heyrði almennt undir valdsvið nefndarinnar, og með vísan til þess að kæruskilyrði virtust að öðru leyti uppfyllt, taldi umboðsmaður að úrskurðarnefndin hefði ekki fullnægt úrskurðarskyldu sinni að þessu leyti og umræddur úrskurður því ekki verið í samræmi við lög. Í öllu falli hefðu viðbótarathugasemdirnar átt að verða nefndinni tilefni til að leita nánari skýringa hjá A um hvort hann hefði hug á að leita endurskoðunar á fleiri atriðum en upphafleg kæra gerði ráð fyrir.

Umboðsmaður benti á að af gögnum málsins og skýringum yrði ráðið að Vinnumálastofnun hefði ekki afturkallað álag á endurgreiðslukröfu á hendur A fyrr en eftir að hann lagði fram kæru til úrskurðarnefndarinnar sem fór þá með forræði málsins.  Umboðsmaður taldi að nefndinni hefði verið rétt að leiðbeina A um að afturköllunin gæti leitt til þess að máli hans lyki án efnislegrar umfjöllunar.  Hann hefði þá haft frekara tilefni til að lýsa afstöðu sinni til slíkra málaloka. Hún taldi einnig að nefndin hefði átt að aflað nánari upplýsinga frá Vinnumálastofnun um þau sjónarmið sem afturköllunin byggðist á. Þar sem það var ekki gert hefði nefndin haft takmarkaðri forsendur en ella til að móta sér rökstudda og fullnægjandi afstöðu til málsmeðferðar Vinnumálastofnunar, hvort ákvarðanir hefðu verið í samræmi við lög og hvort enginn ágreiningur væri fyrir hendi um þau atriði sem hefðu þýðingu fyrir niðurstöðu málsins. Þá var ekki gerð grein fyrir þessum atriðum í rökstuðningi í úrskurðinum. Með vísan til þessa fékk umboðsmaður ekki séð að nefndin hefði fært fullnægjandi rök fyrir þeirri afstöðu sinni að vísa bæri málinu frá. 

Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar að taka mál A til meðferðar að nýju, kæmi fram ósk um það frá honum. Jafnframt beindi umboðsmaður því til nefndarinnar að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem kæmu fram í álitinu.

   

Umboðsmaður lauk málinu með áliti 23. desember 2025.