Samband ungra sjálfstæðismanna (SUS) leitaði til umboðsmanns Alþingis og vakti athygli hans á ummælum sem fjármálaráðherra átti að hafa látið falla í útvarpsviðtali um að „kostnaður vegna kynningar á rökstuðningi ríkisstjórnar [yrði] greiddur úr ríkissjóði, umfram það óháða kynningarefni sem kostað [væri] þaðan sömuleiðis“. Umboðsmaður tók fram að af erindi SUS yrði ráðið að sambandið teldi tilvitnuð ummæli ráðherra hafa beinst að kostnaði vegna kynningarstarfsemi í tilefni af fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars nk. um gildi laga nr. 1/2010. Í erindi A var þess óskað að umboðsmaður Alþingis skoðaði að eigin frumkvæði „hvort fjármálaráðherra [væri] heimilt að ráðstafa opinberum fjármunum“ með þeim hætti sem lýst var í tilvitnuðum ummælum.
Í bréfi til SUS, dags. 8. febrúar 2010, rakti umboðsmaður ákvæði í lögum nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, sem lúta að starfssviði hans og tók fram að í aðdraganda væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu hinn 6. mars nk. kynni ríkisstjórnin eða einstakir ráðherrar að taka þá ákvörðun að útbúa kynningarefni um þá valkosti og þau álitaefni sem á reynir við atkvæðagreiðsluna. Í því sambandi yrði að játa stjórnvöldum þá almennu heimild að nýta fjármuni hins opinbera til að standa að opinberri kynningu á nýrri löggjöf sem Alþingi hefur samþykkt.
Þegar aðstaðan væri sú að fyrir stjórnvöldum lægi að framkvæma þjóðaratkvæðagreiðslu í merkingu 26. gr. stjórnarskrárinnar í tilefni af löggjöf sem Alþingi hefði sett, byggðri á frumvarpi sem ráðherra hefði lagt fram með samþykki ríkisstjórnar en forseti synjað staðfestingar, væri hins vegar ekki loku fyrir það skotið að slík aðstaða kynni að hafa áhrif á form og framsetningu kynningarefnis af hálfu stjórnvalda. Á grundvelli réttmætisreglu stjórnsýsluréttar, sem kveður á um að allar athafnir stjórnvalda verði að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum, væri það álit umboðsmanns að stjórnvöld yrðu við gerð slíks kynningarefnis að gæta að því að framsetning þess væri eins hlutlæg og kostur væri. Þannig væri a.m.k. gætt að því að setja fram þau andstæðu sjónarmið sem fram hefðu komið á vettvangi Alþingis við meðferð og umræðu frumvarpsins sem varð að þeim lögum sem væru umfjöllunarefni þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar. Stjórnvöldum væri því óheimilt við slíkar aðstæður, í ljósi réttmætisreglunnar, að fjármagna úr sjóðum hins opinbera, t.d. með ráðstöfunarfé ráðherra, gerð kynningarefnis sem varpaði að efni til einungis eða aðallega ljósi á þau sjónarmið sem legið hefðu að baki samþykkt meirihluta Alþingis án þess að samhliða væri gætt að því í sambærilegum mæli að lýsa þeim andstæðu sjónarmiðum sem fram hefðu komið við meðferð þess frumvarps sem varð að lögunum. Sá háttur væri auk þess í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti, sbr. 2. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður taldi að svo stöddu ekki ástæðu til að hefja athugun að eigin frumkvæði á framangreindum atriðum með vísan til 5. gr. laga nr. 85/1997, en tók fram að hann myndi í samræmi við þau almennu sjónarmið sem hann rakti í bréfinu fylgjast með því á næstu dögum og vikum hvort og þá hvernig háttað yrði kynningarstarfsemi stjórnvalda í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 6. mars nk. Með þetta í huga hefði hann ákveðið að senda forsætisráðherra og fjármálaráðherra afrit af bréfinu til upplýsingar. Lauk umboðsmaður athugun sinni á erindi Sambands ungra sjálfstæðismanna með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.