Mannréttindi. Skattar og gjöld. Bann við endurtekinni málsmeðferð og tvöfaldri refsingu. Meinbugir á lögum.

(Mál nr. 5925/2010, 5926/2010 og 5927/2010)

Þrír einstaklingar leituðu til umboðsmanns og kvörtuðu yfir úrskurðum yfirskattanefndar í málum þeirra þar sem þeim var gert að greiða fésektir fyrir tilgreind brot á skattalöggjöfinni. Kvartanir hans beindust m.a. að því að í málunum hefði ekki verið tekin til greina sú málsástæða að vísa bæri málunum frá á þeim grundvelli að gjaldendum hefði þegar verið ákvarðað álag á vantalda skattstofna með úrskurðum ríkisskattstjóra. Frávísunarkrafan byggðist á réttinum til að þurfa ekki að sæta endurtekinni málsmeðferð eða tvöfaldri refsingu, sbr. 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu. Umboðsmaður lauk málum þessara einstaklinga með bréfi til lögmanns þeirra með vísan til þess að í ljósi niðurstöðu Hæstaréttar Íslands frá 22. september 2010 í máli nr. 371/2010 væri ekki grundvöllur til athugasemda af hans hálfu við þau atriði í úrskurðum yfirskattanefndar sem kvartanir þeirra beindust að.

Umboðsmaður ákvað hins vegar að rita álit á grundvelli 11. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, og vekja athygli Alþingis, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra á því að meinbugir kynnu að vera á gildandi lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt og lögum nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, miðað við núverandi framkvæmd þeirra.

Umboðsmaður gerði grein fyrir lagagrundvelli álagsbeitingar og refsinga í skattamálum. Því næst gerði umboðsmaður grein fyrir ákvæði 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu og stefnumarkandi dómi yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu frá 10. febrúar 2009 í máli Sergey Zolotukhin gegn Rússlandi. Umboðsmaður tók fram að niðurstaða yfirdeildarinnar byggðist á því að við mat á því hvort um sama brot væri að ræða yrði að líta til þess hvort málsatvik væru eins eða nægjanlega sambærileg. Í dóminum væri vikið með þýðingarmiklum hætti frá fyrri fordæmum Mannréttindadómstóls Evrópu um túlkun á efnisskilyrðum ákvæðisins og þá í átt til rýmkunar á þeirri réttindavernd sem ákvæðið veitir borgurunum.

Því næst gerði umboðsmaður grein fyrir dómi Hæstaréttar frá 22. september 2010 en í þeim dómi kæmi fram að óvissu gætti um skýringu bæði á gildissviði og inntaki ákvæðisins og engin fordæmi væru fyrir því frá Mannréttindadómstóli Evrópu að það færi í bága við 4. gr. 7. viðauka að stjórnvöld beiti álagi á skattstofna vegna brots á reglum um að telja fram til skatts og að sama manni væri í öðru máli gerð refsiviðurlög fyrir dómi vegna sömu málsatvika. Það væri verkefni löggjafans að gera nauðsynlegar breytingar á landsrétti til að virða skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt Mannréttindasáttmála Evrópu. Svo að til greina kæmi að slá því föstu að þessi skipan skattamála hér á landi fengi ekki staðist vegna ákvæða sáttmálans yrði a.m.k. að liggja skýrt fyrir að íslensk lög færu í bága við þau, eftir atvikum í ljósi dóma Mannréttindadómstóls Evrópu. Umboðsmaður gerði jafnframt grein fyrir því hver viðbrögðin hefðu verið í Noregi og Svíþjóð við umræddum dómi Mannréttindadómstóls Evrópu.

Umboðsmaður lýsti því áliti sínu að hann teldi í ljósi þess hvernig ákvæði 108. og 109. gr. laga nr. 90/2003, 27. og 40. gr. laga nr. 50/1988, og 28. og 30. gr. laga nr. 45/1987, væru úr garði gerð að verulegur vafi væri fyrir hendi á að núverandi framkvæmd á þeim stæðist í öllum tilvikum 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka Mannréttindasáttmála Evrópu. Hann hefði einkum í huga þau tilvik þegar sömu eða nægjanlega sambærileg málsatvik byggju að baki annars vegar álagsbeitingu og hins vegar ákvörðun fésektar eða annarra refsinga, og jafnframt að álag teldist vera refsing í merkingu Mannréttindasáttmála Evrópu. Umboðsmaður tók fram að m.t.t. þeirra skyldna sem íslenska ríkið hefði undirgengist teldi hann mikilvægt að handhafar löggjafar- og/eða framkvæmdarvalds hefðu frumkvæði að því að skýra réttarstöðu borgaranna og það samspil réttarheimilda sem hér reyndi á. Hann tók jafnframt fram að þegar sleppti þeim tilvikum þar sem lögin mæltu beinlínis fyrir um að beita skyldi álagi kynni að vera nægjanlegt til þess að uppfylla í framkvæmd þau skilyrði sem 4. gr. 7. viðauka sáttmálans setur að stjórnvöld mótuðu sér stefnu innan ramma gildandi lagaheimilda um að í tilefni af brotum á skattalögum skuli vegna „sama brots“ annað hvort látið við það sitja að beita álagi eða leggja málið í þann farveg að þar til bærir aðilar, yfirskattanefnd eða dómstólar, taki afstöðu til þess hvaða refsingu skuli gera viðkomandi vegna brots á skattalögum.