Starfssvið umboðsmanns Alþingis og skilyrði þess að umboðsmaður fjalli um kvörtun. Stjórnmálastarf.

(Mál nr. 5630/2009)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun sem m.a. beindist að afgreiðslu umboðsmanns á fyrri kvörtunum hans. Í erindinu fór A fram á að settur umboðsmaður sendi formönnum allra þingflokka og forseta Alþingis afrit af tilteknum gögnum, þ.e. fimm bréfum og tveimur greinargerðum til umboðsmanns Alþingis ásamt 22 fylgigögnum frá desember 2008, auk tveggja bréfa og samantektar ásamt átta fylgiskjölum frá janúar 2009. Settur umboðsmaður lauk málinu með bréfi, dags. 29. júní 2010.

Í tilefni af þessum hluta erindis A tók settur umboðsmaður fram að af erindi A yrði ekki annað ráðið en að beiðnin lyti að viðfangsefnum sem væru stjórnmálalegs eðlis. Hann taldi það falla utan við starfssvið umboðsmanns Alþingis, eins og það væri afmarkað í lögum, að senda formönnum þingflokka og forseta Alþingis gögn sem borist hefðu í tengslum við tiltekin mál er hefðu verið til meðferðar hjá embættinu. Settur umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að verða við beiðninni.