Lífeyrismál. Staðfesting samþykkta lífeyrissjóðs. Stjórnsýslueftirlit.

(Mál nr. 9057/2016)

A, starfsmaður X, leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefði hafnað beiðni hans um að taka til skoðunar ákvæði samþykkta Lífeyrissjóðs bankamanna sem kvað á um skylduaðild m.a. starfsmanna X að sjóðnum. Byggði A á því að hvorki í lögum né kjarasamningi væri kveðið á um slíka skylduaðild. Synjun ráðuneytisins byggði m.a. á því að það væri ekki hlutverk þess að hafa eftirlit með því hvort samþykktir lífeyrissjóða, sem ráðuneytið staðfestir, samræmdust lögum að undanskilinni könnun á afmörkuðum atriðum.
Umboðsmaður benti á að af forsögu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og lögskýringargögnum að baki þeim mætti ráða að í staðfestingarhlutverki ráðherra fælist eftirlit með því að samþykktir lífeyrissjóða væru í samræmi við lögin. Það væri jafnframt í samræmi við það almennt viðurkennda sjónarmið í stjórnsýslurétti að staðfesting stjórnvalds m.a. á reglum fæli í sér eftirlitsskyldu með lögmæti reglnanna. Eftirlitshlutverk Fjármálaeftirlitsins með starfsemi lífeyrissjóða takmarkaði ekki eftirlitshlutverk ráðuneytisins að þessu leyti. Það var því álit umboðsmanns að þegar lífeyrissjóðir sæktu um starfsleyfi eða gerðu breytingar á samþykktum sínum hvíldi skylda á ráðuneytinu að kanna hvort ákvæði samþykktanna væru í samræmi við m.a. önnur ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Afstaða ráðuneytisins sem fram kom í svari þess til A hefði því ekki verið í samræmi við lög.
Umboðsmaður tók fram að því er varðaði erindi A að það leiddi af framangreindu að við staðfestingu á samþykktum lífeyrissjóðsins yrði að ganga úr skugga um að ákvæði þeirra um skylduaðild samræmdist ákvæði laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda um aðild eins og það yrði túlkað í ljósi félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.
Umboðsmaður beindi þeim tilmælum til ráðuneytisins að það svaraði A á ný, kæmi fram beiðni þess efnis, í samræmi við þau sjónarmið sem rakin væru í álitinu og að ráðuneytið tæki afstöðu til þess hvort tilefni og skilyrði væru til að fjalla á ný um umrætt ákvæði í samþykktum Lífeyrissjóðs bankamanna. Umboðsmaður beindi jafnframt þeim tilmælum til ráðuneytisins að taka framvegis mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu. Að lokum tók umboðsmaður fram að tilefni kynni að vera til að endurskoða almennt framkvæmd ráðuneytisins við staðfestingu samþykkta lífeyrissjóða.